Eru breytingar óumflýjanlegar á þínum vettvangi?

Um bókarýni

Heath, Dan og Chip. 2010. Switch: How to change things when change is hard. Broadway Books: New York. 320 síður.

Fyrst var ég efins um að þessi bók hefði eitthvað með fullorðinsfræðslu að gera enda er það ekki umfjöllunarefni bókarinnar sem slíkt. En þegar betur er að gáð þá fjallar hún óbeint um ýmsa þætti í fullorðinsfræðslu. Í raun kemur hún inn á mjög marga þætti í flestum þemum námskeiðsins Skipulag og framkvæmd fræðslu með fullorðnum..

Ef við byrjum á þema nr. 2 ,,Kerfi og nálganir við hönnun námsferla” og 3 ,,Hvernig lærir fólk …” þá fjalla Heathbræður um dæmi þar sem hanna þurfti ákveðnar nálganir til að fá fólk til að læra, leysa vandamál og þar með breyta einhverju ástandi. Breyta hegðun, atferli. Af því leiðir að sá sem hannar námsferli þarf að hafa innsýn í sálfræðilega þætti nemenda, eins og t.d. ótta við breytingar, myndun vana og stuðning við nemandann í aðstæðum en þannig kemur bókin inn á þema nr. 3. Áherslan á breytingar (en bókin snýst um það auðvitað) færir okkur inn á ákveðið hugtak fullorðinsfræðslu, þ.e. ,,breytinganám” (e. transformative learning). Það er heilt svið ,,andragogy” sem ekki er hægt að fara nánar út í hér.

Heathbræður koma sterklega inn á þema nr. 4 ,,Greining námsþarfa” þar sem þeir beinlínis fjalla um tilhneigingu mannfólksins til að sætta sig við óbreytt ástand eða ,,status quo”. Þeir sem telja sig þurfa að breyta því ástandi (allskonar fólk í forystu) verða að hafa markmiðssetningu í huga sem töluvert er fjallað um í bókinni, sbr. að senda ,,fílatemjaranum” ímyndað póstkort af einhverjum áningastað. Hversu vel á það við þema nr. 5 um ,,Markmið”? Til að átta sig á hvað átt er við með fílatemjara þá verður þú að lesa bókadóminn (sjá krækju hér að neðan).

Kannski er það ofsögum sagt að gerð ,,tékklista” sem fjallað er um í bókinni komi inn á þema nr. 6 ,,Hönnun námsferla” en með góðum vilja má sjá að það er eitt mikilvægra atriða til að halda utan um áunna þekkingu eða aðstæður sem þarf að hafa stjórn á. Heathbræður taka enn fremur gott dæmi um skólastjóra sem skapaði aðstæður fyrir nemendur til að læra nýja hegðun og breyta ósækilegum skólabrag í ásættanlegan. En það þurfti að breyta einhverju í aðstæðum, búa til feril sem leiddi af sér breytinguna.

Niðurstaðan í stuttu máli er sú að bók Heatbræðra Switch: How to Change Things When Change is Hard gæti hentað vel fyrir þá sem starfa við hönnun námsferla í fullorðinsfræðslunni eða fræðslu almennt. Hún veitir þeim ákveðið sjónarhorn á þá þætti sem liggja til grundvallar mannlegu eðli og skýrir á áhugaverðan hátt hvað getur hindrað breytingar þegar breytinga er þörf. Og breytingar kalla að öllu jöfnu á að við lærum eitthvað nýtt eða endurskoðum fyrirliggjandi þekkingu, tækni eða viðhorf.

Þorvaldur H. Gunnarson.

Lesa bókadóminn  Switch! Á hverju þarft þú að kveikja í forystu og á vettvangi þegar breytingar eru óumflýjanlegar?

Ein athugasemd við “Eru breytingar óumflýjanlegar á þínum vettvangi?”

  1. Sæll Þorvaldur.
    Takk fyrir mjög svo fína bókarýni. Mér finnst þetta efni mjög áhugavert og umfjöllun þín skýr og góð.
    Umræðan um fílatemjarann höfðaði sérstaklega til mín, ekki síst þegar fjallað var um lausnaleit, fornleifauppgröft og ofhugsun. Það var skemmtilegt og ég ætla að taka það til mín.
    Ég er í óða önn að skrifa bókarýni og finnst mjög gott að sjá hvernig þú hefur unnið þetta verkefni.
    Aníta Jónsdóttir.

Skildu eftir svar