Lærðu að hekla! Námskeiðslýsing og hugleiðing

Lærðu að hekla!

Þar sem algjörir byrjendur læra að hekla teppi.

Hefur þig alltaf langað að læra að hekla, en veist ekki hvar þú átt að byrja?

Langar þig að mæta einu sinni í viku í kósýkvöld, þar sem þú lærir að hekla og skemmtir þér vel í leiðinni?

Viltu hafa færnina til að hekla tuskur, teppi, trefla og fleira með skemmtilegu og einföldu mynstri?

Þá er þetta námskeið fyrir þig!

Hefur þú aldrei snert heklunál? Lærðu að hekla! er námskeið ætlað algjörum byrjendum, en strax á fyrsta degi munt þú byrja að hekla tusku með fallegu mynstri. Seinna meir getur þú heklað teppi eða trefil með sama mynstri, auk þess sem þú verður fær um að læra sjálf/ur að hekla það sem þú óskar þér, með þeirri hæfni og verkfærum sem þú öðlast á námskeiðinu.

Á námskeiðinu munt þú læra að:

  • Hekla allar hinar mismunandi lykkjur í hekli: Loftlykkju, stuðla, fastalykkju og fleira.
  • Lesa hekluppskriftir byggðar á orðum eða myndum.
  • Hekla horn-í-horn mynstur sem hægt er að nota í tuskur, trefla, teppi og fleira.

Námskeiðið fer fram miðvikudagana 3., 10. og 17. maí frá kl. 19:30-22:00 í Húsi Frítímans.

Námskeiðið kostar 10.000 kr. og komast 12 þátttakendur á námskeiðið.

Innifalið í verði er fagleg kennsla, upplýsingamappa um undirstöðuatriði hekls, stuðningur í gegnum Facebook hóp og boð um áframhaldandi vikulega hittinga að námskeiði loknu. Að auki verður þátttakendum boðið að kaupa Heklbók Þóru og heklunálasett á sérstöku afsláttarverði.

Það sem þátttakendur skulu taka með sér á námskeiðið:

  • Heklunál nr. 3 og bómullargarn í tveimur litum.
  • Heklunál nr. 6 og ullargarn að eigin vali í nokkrum mismunandi litum.

Nánari upplýsingar veitir Pála Margrét í síma 660-5561 eða á palamargret@gmail.com

Hugleiðing

Ég hef lesið mikið af námskeiðslýsingum í gegnum tíðina, enda hef ég mikinn áhuga á hvers kyns námi og myndi ef ég hefði peningana og tímann taka námskeið um allt og ekkert til að læra meira og meira. Áður en ég skrifaði mína námskeiðslýsingu skoðaði ég námskeiðslýsingar Sóleyjar og Anítu á blogginu sem gáfu mér góðan grunn að því hvernig námskeiðslýsing ætti að líta út, auk þess að skoða námskeiðslýsingar í Námsvísi Farskólans, sem er símenntunarstöðin í mínum heimabæ. Farskólinn (2017) gefur út Námsvísi á hverju ári með samansafni af þeim námskeiðum sem boðið er upp á það árið á Norðurlandi vestra. Námskeiðslýsingarnar þar eru hnitmiðaðar og skýrar og koma nokkur box með mismunandi námskeiðum fram á hverju síðu. Efst í boxinu kemur nafn námskeiðsins fram, því næst nafn leiðbeinanda, verð námskeiðs og fjöldi klukkustunda á námskeiðinu. Þar fyrir neðan kemur fram lýsing á námskeiðinu, hvar og hvenær það er haldið, fjöldi þátttakenda og neðst á síðunni er pláss fyrir aðrar upplýsingar sem þurfa að koma fram.

Christopher Pappas (2015) nefnir sjö atriði sem mikilvægt er að hafa í huga við námskeiðs-lýsingar, sem hann segir skipta miklu um þátttöku á því námskeiði sem auglýst er:

  • Byrjaðu á fullyrðingu sem vekur annað hvort til hugsunar eða er sannfærandi, til dæmis spurningu sem vekur athygli og lætur hugsanlega þátttakendur velta fyrir sér hvernig námskeiðið myndi henta þeim.
  • Settu inn lykilorð sem eru viðeigandi og mikilvæg. Tilgangurinn með þessu er að auðvelt sé að finna námskeiðið eftir þeim lykilorðum sem hugsanlegir þátttakendur leita eftir.
  • Forðastu flókinn orðaforða eða orð sem fólk gæti misskilið. Námskeiðslýsingin ætti að vera skýr og auðskiljanleg, án óþarfa málalenginga.
  • Notaðu orð og frasa sem fela í sér aðgerðir, til dæmis að kanna eða uppgötva, sem sýna að þátttakendurnir verða virkir í lærdómi sínum á námskeiðinu.
  • Forðastu endurtekningar, en tilgangur námskeiðslýsingarinnar er að veita markhópnum stutt og hnitmiðað yfirlit yfir það hvers vegna fólk ætti að skrá sig á námskeiðið. Titill lýsingarinnar ætti að fá fólk til að lesa lýsinguna og lýsingin ætti að vekja upp áhuga til að læra meira.
  • Hafðu námskeiðslýsinguna stutta og hnitmiðaða. Mælt er með því að lýsingin sé styttri en 130 orð, enda hefur fólk takmarkaðan tíma til að lesa í gegnum langan texta.
  • Talaðu beint við verðandi þátttakendur. Fólki vill líða eins og talað sé beint við það, en í stað þess að skrifa lýsinguna í þriðju persónu skaltu tala beint til fólksins með því að nota „þú“.

Julie Coates (2015) bendir einnig á að námskeiðslýsingar séu oftar en ekki leiðingar, illa skrifaðar og fullar af endurtekningum. Hún segir að titill námskeiðslýsingar eigi að vera einfaldur eða grípandi og að í lýsingunni skuli koma fram nafn leiðbeinanda, staðsetning, dagsetning, tímasetning, verð námskeiðs, hvaða gagna er þörf og fleira sem gæti verið nauðsynlegt. Lýsingin ætti að vera áhugaverð, hnitmiðuð og koma öllum upplýsingum til skila. Hún nefndir svipaðan orðafjölda og Pappas, auk þess að segja að ekki eigi að vera fleiri en 60 orð í hverri efnisgrein. Umfjöllun hennar styður því enn frekar við það hvernig skrifa skal góða námskeiðslýsingu, en allt þetta hafði ég í huga við skrif minnar námskeiðslýsingar, þó svo að í heildina sé hún öllu lengri en mælt er með.

4 athugasemdir við “Lærðu að hekla! Námskeiðslýsing og hugleiðing”

  1. Vá hvað ég væri til í að fara á þetta námskeið hjá þér Pála! Ég reyndar kann að hekla en það er miklu skemmtilegra að gera það í góðum félagsskap 🙂 Í sambandi við námskeiðslýsingar, þá er mjög gott að nýta sér fræðslu frá hvor öðrum hér innan hópsins – færslurnar eru þá að nýtast manni vel. Ég hef líka mjög gaman að því að sækja námskeið og þá sérstaklega ef námskeiðslýsingin höfðar til mín. Og þitt námskeið myndi gera það 😉

  2. Sæl Pála.
    Það væri mjög gaman að koma á heklnámskeiðið þitt. Mér finnst námskeiðslýsingin þín vel unnin. Hún grípur athygli lesandans og vekur áhuga á viðfangsefninu. Allar nauðsynlegustu upplýsingar koma fram og textinn er hnitmiðaður.
    Kveðja, Aníta.

Skildu eftir svar