Að vinna með reynslu – blogg úr bókarkafla

Hvernig lærir fólk

Að vinna með reynslu

Ég var að lesa bókina „Working with experience“ ritstýrð af David Boud og Nod Miller og ákvað að deila með ykkur smá hluta úr kaflanum „Helping people learn what they do, breaking dependence on experts“ eða „Að hjálpa fólki að læra það sem það gerir, að brjóta/losa um ósjálfstæði sérfræðinga“ eftir Stephen Brookfield ( bls 27-40) Þýðingin er nú kannski ekki góð en kaflinn fjallar um að hjálpa fólki að læra af eigin starfi og reynslu og auka sjálfstæði og öryggi í vinnubrögðum. Að sérfræðingar læri að treysta eigin innsæi í starfi og taki ákvarðanir í stað þess að horfa ráðalausir á vandann.

Ferlið sem Stepen kynnir í þessum kafla kallar hann GPA (Good practices audit) og er þriggja þrepa ferli sem hjálpar sérfræðingum að kafa í eigin þekkingu og leita lausna við algengum vandamálum sem upp koma í starfi viðkomandi.

  1. að setja fram vandann – vinna hvaða vandamál eru til staðar

GPA byrjar á því að hjálpa sérfræðingum að setja fram vandann. Að vinna t.d. með hópi kennara sem vinna í mismunandi aðstæðum með ólíkan hóp nemenda og hjálpa þeim að finna svipuð vandamál sem þeir eru að takast á við. Þegar kennararnir sjálfir finna hvaða vandamál þeir eru að takast ká við og vinna að lausn á vandanum eru þeir líklegri til að leggja sig fram og hætt ekki fyrr en leiðir eru fundnar til að bregðast við vandanum.

Spurningar sem má spyrja til að opna umræðuna og finna vandann eru : Hvað þarf ég mestu hjálpina við? eða hvað þarf ég mest að vinna með/æfa mig í ? Einnig má biðja kennara að hugsa 6 mánuði aftur í tímann og finna atvik sem hafa orsakað vanlíðan hjá þeim í starfi eða atvik sem hafa orsakað að þeir hafa viljað hætta í starfinu? Margir segja liklegast að þeir hugsi það jafnvel daglega en þá er að biðja þá að leita eftir þeim allra versta degi sem þeir hafa upplifað í starfi og skrifa greinargerð um daginn, hvað gerðist þann dag, hverjir áttu þátt í því að þeim leið svona, hvað gerðist og hvaða tilfinnigar brutust út. Síðan lesa kennararnir upp vandamálin fyrir hópínn og ákveða í sameningu hvaða vandamál þeir vilja vinna dýpra með. Vandamálin gætu verið á þessa leið: Nemendur sem neita að læra. Nemendur skila ekki verkefnum o.s.frv. Vandamálin eru skrifuð á blað sem hengd eru uppá vegg og svo velja kennarar sér vandamál sem þeir vilja takast á við og þannig skipta sér í hópa til að vinna saman.

  1. að greina vandann

Við greiningarvinnuna leggur Stephens fram eyðublað þar sem kennararnir fylla út bestu og verstu reynslu sína í tengslum við vandann (sjá bls 31). Með því að fylla út eyðublaðið greinir hver og einn þrjú atriði sem lýsa verstu reynslu sinni og þrjú sem lýsa bestu reynslu sinni. Hver og einn greinir út frá sér sem nemanda(learner), sem samstarfsmann og einnig sem kennara. Að lýsa verstu og bestu reynslu sinni sem samstarfsaðila eða áhorfanda þ.e. að lýsa upplifun þar sem viðkomandi skammast sín fyrir vinnubrögð hans eða viðbrögð og upplifun þar sem hann fyllist stolti af viðkomandi. Að lýsa verstu og bestu reynslu sinni sem kennara þ.e. þar sem viðkomandi upplifir sig ekki vera að standa sig og reynslu sem hann er stoltur af á ferlinum. Að lýsa verstu og bestu reynslu sinni þar sem þeir upplifa sig í hlutverki nemanda (learner) þ.e. eitthvað sem þeir hafa lært af reynslu eða af öðrum, eitthvað gott og eitthvað sem er miður gott.

  1. að safna saman tillögum

Hver og einn kennari les upp bestu og verstu reynslu sína sem nemanda, samstarfsaðili og kennari. Þessu er safnað saman og komi fleiri en einn með sömu reynsluna er það skráð og nýtt í áframhaldandi vinnu. Erfiðasti hlutinn í þriðja hluta er að hjálpa kennurum að umbreyta innsýn sinni eða sýn sinni á vandann yfir í móta ákveðnar aðgerðir. Stephens hefur lagt áherslu á að vinna þrjár leiðir eða viðbrögð við hverju vandamáli. Dæmi. Vandamál er mótþrói við nám. Leiðir til að leysa vandann gæti t.d. verið að tengja námið við reynsluheim barnanan o.s.fr.v. Kennararnir koma sér saman um þrjár leiðir sem þeir telja geta leyst vandann og vinna út frá þeim.

Að lokum

GAP er leið til að efla kennara í að leysa vanda með því að kafa í eigin þekkingu og reynslu í stað þess að einhver komi og segi þeim hvernig skuli leysa vandann. Það að vera þátttakandi í lausnaleit hefur þau áhrif að kennarinn verður líklegri til að fylgja eftir áætlunum sem ákveðnar eru til að reyna að leysa vandann.

Það er freystandi fyrir stjórnanda, þegar upp koma vandamál og lítill tíma er í teymisvinnu, að finna leiðir og leggja línur sem eiga að leysa vandann, að segja „nú gerum við svona eða svona“ en litlar líkur eru aftur á móti á árangri. Kennurum geta líka þótt þægilegt að vera færðar lausnir á silfurfati en því miður er raunin sú að þeir fara ekki endilega eftir því sem ákveðið er fyrir þá eða vinna það af hálfum hug vegna þess að þeir eiga engan hlut að lausnaleitinni og ákvarðanatökunni. Þegar vandamálið heldur áfram getur verið gott að segja „ okkur var sagt að gera svona en það virkar bara ekki“.

Langtíma vinna í lausnaleit þar sem allir eru þátttakendur er leið sem er áhrifarík og hver og einn finnur að hann skiptir máli. GAP hjálpar kennurum að vera meira fókusaðir á það sem skiptir máli og þeir fá tækifæri til að vera sérfræðingar í sínu starfi, í því sem þeir kunna best.

 

Drífa Þórarinsdóttir

7 athugasemdir við “Að vinna með reynslu – blogg úr bókarkafla”

  1. Takk fyrir þetta blogg Drífa.
    Þetta er hljómar ótrúlega góð aðferð fyrir fullorðna til þess að efla sig í starfi. Ég gæti trúað að þetta gæti hentað fleirum en kennurum. Þetta gæti verið möguleg leið til þess að efla starfsandan og hjálpa fullorðnum að viðhalda starfsánægju. En þetta minnir mig líka mikið á RDPED (reflective dialogue parent education) sem við kynntum fyrir ykkur fyrr á önninni og sem við í foreldrafræðslunni þekkjum vel. Þar sem verið er að hjálpa foreldrum að þroskast til þess að þeir finni sjálfir góðar leiðir í uppeldinu í stað þess að einhver sé beinlínis að segja þeim hvað þeir eigi að gera. Maður sér alltaf meir og meir hvað reynsla og þekking fullorðna skiptir gríðarlegu máli þegar kemur að námi þeirra.
    Gaman að sjá hvað öll þessi fræði, þ.e. um fullorðinsfræðslu tengjast mikið.

    1. Sæl Hrönn og takk fyrir innleggið
      Já þessi aðferð getur hentað sérfræðingum á mörgum sviðum og margar þeirra eru mjög líkar. Byggja á því að starfsmenn sem unnið hafa til margra ára séu sérfræðingar á sínu sviði og starfsvettvangi. Í raun aðferð til að hjálpa fólki að rýna í eigin vanda og hjálpast að við að leysa vandann í stað þess að treysta á að aðrir leysi vandann eða komi með lausnir fyrir þá. Það að eiga eitthvað í því sem ákveðið er gerir það að verkum að viðkomandi verður áhugasamari um að gera vel og að markmiðin náist
      Bestu kveðjur
      Drífa

  2. Takk fyrir gott innlegg.

    Þetta á vel við hugmyndina að valdefla fólk (e. empower) eða að það valdeflist t.d. í störfum sínum. Það á ágætlega við kennarastéttina og þetta minnir mig á þátt dómgreindar í starfi sem Hargreaves og Fullan telja einn af þremur mikilvægum þáttum í myndun fagmagns (e. professional capital). Efling dómgreindar í kennarastarfinu fæst einmitt með ígrundun og samræðum við kollegana þar sem spurt er í sífellu ,,hvað mynduð þið gera ef …?“ Þannig læra kennarar einna best og læknar líka. Hugmyndafræðin um GPA er greinilega tengd svipuðum hugmyndum um reynslunám sbr. innleggið frá Hrönn. Aðferðin minnir mig einnig á PEEL-aðferðina sem snýst um samvinnu kennara við að ígrunda starfið, sjá t.d. http://www.peelweb.org/index.cfm?resource=about .

    bkv.
    Þorvaldur.

    1. Sæll Þorvaldur og takk fyrir þetta
      Já margar þessar aðferðir eru mjög svo líkar og eiga það sameiginlegt að einmitt valdefla fólk sem er frábært en svo er spurning hversu mikið t.d. stjórnendur leitast við að valdefla fólk eða hvetja það áfram til að ígrunda og leita lausna. Ég held að stjórnendur geti gert betur, stoppa við, hlusta á starfsfólkið og vera hvetjandi í daglegu starfi til ígrundunar. Það eru ekki margir fundir t.d. í leikskólum fyrir vinnu eins og GPA því miður en ég tel því afar mikilvægt að stjórnendur séu stöðugt með hvatningu og ýti að starfsfólki fræðsluefni sem miðar að því að efla sjálfið og metnað fyrir því sem verið er að gera. Að deila verkefnum og deila ábyrgð skiptir miklu og sýna starfsfólki að það er fært á sínu sviði.
      Bestu kveðjur
      Drífa

  3. Sæl verið þið.
    Takk fyrir bloggið Drífa og hugleiðingar.
    Þegar ég las færslurnar ykkar datt mér í hug skemmtileg æfing sem ég gerði á JA ráðstefnunni út í Barcelona um daginn. Allir þátttakendur áttu að hugsa eitthvað vandamál sem þeir stæðu frammi fyrir og þyrftu aðstoð við. Þegar við höfðum hugsað eitthvað áttum við að ganga um og bera vandann upp við 5 aðra sem áttu að gefa ráð með því að segja: ,,Ef ég væri í þínum sporum myndi ég…“ Þú valdir svo hvaða lausn þú vildir prófa. Þetta var mögnuð æfing og það var frábært að fá öll þessi góðu ráð.
    Ég held að við séum ekki alveg nógu góð í því að viðurkenna þegar við stöndum frammi fyrir vanda, til dæmis í vinnunni. Við erum jú sérfræðingar, ekki satt? Þess vegna held ég að það sé mjög gott að geta rætt málin í teymum og ekki spillir fyrir að hafa ákveðið ferli, eins og GPA til að styðjast við.
    Aníta.

    1. Sæl Aníta
      Já ég er sammála þér, það virðist vera að sumt fólk eigi erfitt með viðurkenna að það standi frammi fyrir vanda og leita ekki eftir ráðleggingum t.d. frá samstarfsfólki, yfirmönnum eða ráðgjöfum. þessi aðferð sem þú nefnir er góð að mínu mati fyrir starfsmannahóp og gæti orðið til aukinnar samstöðu og vilja fólks til að ræða saman og finna lausnir. Það vill nefnilega til að þegar maður stendur frammi fyrir vanda og ræðir við aðra þá eru oftast einn eða fleiri sem kannast við málið og eru jafnvel sjálfir orðnir úrræðlalausir. Krafa um endurmenntun má að mínu mati vera meiri og auka þarf svigrúm í skólum svo það geti orðið að veruleika. Handleiðari er eitthvað sem ég vil sjá meira í leikskólunum þ.e. aðili sem leiðir kennarana inn í nýja starfið. Með því myndast ákveðið traust og líkur á að tekið sé á málum sem upp koma. Hvernig er staðan í grunnskólunum, eru kennarar að fá handleiðslu í upphafi starfsferils eða á starfsferlinum?
      kv Drífa

      1. Sæl.
        Þegar ég byrjaði í kennslu fyrir ,,nokkrum“ árum síðan þá fengu nýútskrifaðir kennarar leiðsagnarkennnara í heilan vetur ef mig misminnir ekki. Núna er engin handleiðsla önnur en sú sem kennarar sækja sér sjálfir. Slíkt er niðurgreitt af KÍ, en ég veit ekki hversu duglegir kennarar eru að nýta sér slíka þjónustu. Sjálf fer ég reglulega í handleiðslu og finnst það mjög gagnlegt.
        Aníta.

Skildu eftir svar