Tímastjórnun – vinnustofa

Stutt námsferli – Tímastjórnun

Þriðjudaginn 28. febrúar tók ég þátt í vinnustofu um tímastjórnun. Vinnustofan var skipulögð af skólanum sem ég vinn hjá og skráð sem endurmenntun þar sem hluti af starfi kennara er að sækja sér endurmenntun.

Námskeiðið er hluti af vinnustofum Dale Carnegie. Sú sem stjórnaði þessari vinnustofu vinnur sem ráðgjafi hjá Dale Carnegie.

Námskeiðið stóð yfir í u.þ.b. 90 mínútur.

Markmiðið með vinnustofunni var að skoða í hvað við verjum tímanum og einbeita okkur að því að eyða orku í verkefni sem hafa raunverulegt mikilvægi, að beita aðferðum til að áætla, skipuleggja og stjórna tímanum og að auka framleiðni með skilvirkari vinnu en ekki meiri vinnu. Í dag er krafa um að gera hlutina meiri, betri, hraðari og ódýrari. Oft kostar þetta meiri tíma og minni gæði.

Námskeiðið fór fram í sal skólans. Salurinn er frekar stór og borð og stólar því vel dreift um stofuna. Ein af þeim ráðleggingum sem Ingvar Sigurgeirsson kemur að þegar velja á námsumhverfi er sætaskipan sé í sem bestu samræmi við kennsluaðferðir og borðum sér raðað með hliðsjón af stærð og fjölda hópanna (Ingvar Sigurgeirsson, 1990). Á þessu námskeiði voru um 13 kennarar en salurinn er gerður fyrir u.þ.b. 100 manns í sæti við borð. Sumir eiga það til að setjast alltaf sem lengst frá þeirri staðsetningu sem námskeiðshaldari hefur valið sér (furðulegur ávani hjá fullorðnu fólki). Námskeiðshaldari bað þá sem settust lengra í burtu vinsamlegast um að setjast aðeins nær og þeir sem voru aftast settust aðeins framar en samt ekki í þau sæti sem laus voru fremst. Það þarf væntanlega ekki að taka það fram að ég settist auðvitað í eitt af fremstu sætunum enda kann ég mig alveg við svona aðstæður 😉 En þetta vandamál hefði vel verið hægt að leysa með því að hafa námskeiðið í minna rými – eins og skólastofu. Í þessu tilviki var það líklegast í höndum skólastjóra að sjá um rými fyrir fyrirlesturinn þannig að það er ekki við námskeiðishaldara að sakast í þetta skitpi – nema kannski að hún hefði getað verið búin að kanna aðstæður fyrst eins og Ingvar ráðleggur sem hluta af undirbúningi ef kostur er á (Invar Sigurgeirsson, 1990).

Námskeiðshaldarinn byrjaði á því að kynna sig, segja frá sjálfri sér og markmiðum námskeiðsins en kynning á leiðbeinanda getur skipt miklu hvað árangur varðar. Þá dreifði hún skrifblokk og penna til þátttakenda. Hún notaði skjávarpa fyrir glærur og flettitöflu og tússpenna til að koma skilaboðum til þeirra sem sátu vinnustofuna. Flettitaflan er einfalt og gott hjálpartæki þar sem hægt er að geyma blöðin sem skrifað hefur verið á og nota þau seinna. Þá er einnig hægt að staðsetja hana hvar sem er (Ingvar Sigurgeirsson, 1999).

Það fyrsta sem námskeiðshaldari gerði var að skrifa tölurnar 1440 upp á skriftartöfluna og spyrja okkur hvort við vissum hvað þessar tölur stæðu fyrir. Eitt af þeim ráðum sem gefið er fyrir áhrifaríkt fyrirlestrarhald er að nota góðar kveikjur til að draga athygli þátttakenda að efninu. Markvissar spurningar sem vekja nemendur til umhugsunar er ein af þeim kveikjum sem hægt er að nota (Ingvar Sigurgeirsson, 1999). Fyrir þá sem ekki vita þá er svarið við spurningunni var að talan stendur fyrir mínútur í sólahringnum og tengist þannig námsefni dagsins þ.e. þetta eru þær mínútur sem við höfum til ráðstöfunar yfir sólahringinn og þær mínútur sem við þurfum að skipuleggja. Námskeiðshaldari talaði út frá því hvernig við nýttum þessar mínútur. Hún bað um hugmyndir frá hópnum og skrifaði þær á töfluna og notaði þannig hugarflæði frá þáttakendum og skapaði þannig umræður. Einnig bætti hún við atriðum úr eigin reynslu til að útskýra betur það sem hún var að tala um. Hún skipti okkur síðan niður í hópa og gaf okkur ákveðinn tíma til að vinna verkefni sem hún úthlutaði okkur. Að því loknu skrifaði hún hugmyndirnar frá hverjum hóp á töfluna. Í lok námskeiðisins dreyfði Unnur bæklingi til okkar með meiri upplýsingum um það efni sem hún fór yfir á vinnustofunni.

Námskeiðshaldari setti upp töflu sem skipt er í fjögur hólf. Í þessi hólf röðum við þeim verkefnum sem við þurfum að vinna og flokkum þau eftir því hvort þau eru mikilvæg og aðkallandi, mikilvæg en ekki aðkallandi, ekki mikilvæg en aðkallandi og ekki aðkallandi og ekki mikilvæg. Með því að raða verkefnunum svona niður getum við skipulagt tímann okkar og verkefnin betur. Eitthvað sem ég gæti nýtt mér í vinnunni, í náminu og á heimilinu.

Þá voru einnig kynnt tæki til tímastjórnunar og leiðir til þess að snúa ósigrum í sigra.

Í lokin hvatti námskeiðshaldari okkur til þess að skrá niður í hvað við notuðum tímann okkar í vinnunni í eina viku og dreifði til okkar eyðublað til að nota við skráninguna.

Sú kennsluaðferð sem notuð var flokkast undir útlistunarkennslu þar sem markmiðið er að fræða, miðla, útskýra og vekja til umhugsunar. Kröfur kennara til nemenda er að hlusta, fylgjast með, skoða, skrá og hugsla en kennarinn þarf að vekja áhuga, útskýra og vekja til umhugsunar. Til útlistunarkennslu teljast m.a. fyrirlestrar og var þetta námskeið í því formi. Fyrirlestrar eru algengasta aðferðin í útlistunarkennlsu en önnur algeng kennsluaðferð er sýnikennsla. Í sýnikennslu sýnir kennarinn tiltekin vinnubrögð eða aðferðir. Oft eru þessar aðferðir notaðar saman. Helstu ókostir fyrirlestranna eru þeir að nemendur eru óvirkir og byggjast á einstefnumiðlun og því erfitt að ganga úr skugga um að nemendur læri það sem að er stefnt (Ingvar Sigurgeirsson, 1999). Þá er gott að brjóta upp fyrirlesturinn með því að biðja þátttakendur að ræða saman stutta stund í litlum hópum. Námskeiðshaldari notaði þá aðferð nokkrum sinnum á námskeiðinu. Þá var einnig notuð umræðu- og spurnaraðferð sem byggist á því að námskeiðshaldarinn beitir spurningum og annarri kennslutækni með markvissum hætti til að skpa umræður með það að markimði að efla skilning þátttakenda á tilteknu viðfangsefni.

Glærurnar sem námskeiðshaldari notaði voru ekki margar en hún kom efninu til skila með því að útskýra vel efnið en ein af ráðleggingum Ingars er að varast að ætla sér ekki um of eða ætla að fara yfir of mikið efni (Ingvar Sigurgeirsson, 1999). Á námskeiðinu notaði námskeiðshaldari úttlistunarkennslu þar sem kennarinn er í hlutverki fræðaran sem miðlar þekkingu, fræðir, útskýrir, varpar fram spurningum, ræðir og dregur ályktanir. Þá nýtti hún einnig þáttökufyrirlestrar þar sem fyrirlesarinn miðlar efninu og byggist að einhverju leiti á þáttöku nemenda sem eru hvattir til að spyrja eða gera athugasemdir. Almennt eru góðir fyrirlestar taldir henta þegar miðla þarf ákveðnum upplýsingum til að vekja áhuga á efni og til að vekja spurningar. Mikilvægt er að virkja áheyrendur með spurningum eða stuttum verkefnum. Langur og tilbreytingarlaus fyrirlestur er trúlega versta kennsluaðferð sem til er og oft er það þannig að margir reyna að komast yfir mikið efni en gallinn er sá að athygli flestra eru takmörk sett. Tilbreyting er góð og það að varpa fram spurningum til umræðu eða segja góða sögu sem tengist efninu er árangursríkt til að halda athygli þátttakenda (Ingvar Sigurgeirsson, 1999). Á þessu námskeiði virkuðu þessar aðferðir vel og vakti það undrun mína var hvað tíminn var fljótur að líða. Oft á þessum tíma dags, eftir að hafa varið tíma í kennslu sjálf allan daginn, er þetta tími sem maður er ansi orkulaus og þreyttur og því ekki endilega það besta að enda daginn á fundi eða fyrirlestri. Oft er það þannig að ef ég þarf að sitja og hlusta, þá á ég frekar erfitt með að halda mér vel vakandi og tíminn oft ansi lengi að líða. Því kom mér á óvart hvað tíminn á námskeiðinu leið hratt og hvað það var alltaf áhugavert.
Í heildina séð skemmilegt námskeið sem gæti nýst öllum vel ?

Heimildir

Ingvar Sigurgeirsson. (1990). Stutt námskeið – strangur skóli! Reykjavík: Endurmenntunarnefnd Háskóla Íslands og Fræðslumiðstöð iðnaðarins.

Ingvar Sigurgeirsson. (1999). Að mörgu er að hyggja. Reykjavík: Æskan ehf.

Skildu eftir svar