Bókin Learning as way of leading: Lessons from the struggle for social justice er eftir þá höfunda S. Preskill og S. Brookfield og hún er gefin út 2009.
Ástæðan fyrir því að ég valdi þessa bók er sú að á námskeiðinu höfum við meðal annars verið að æfa okkur í leiðtogahæfni og mig langaði að kynna mér það þema betur. Í bókinni fjalla höfundar um kjarna þess að læra leiðtogahæfni og leggja fram níu lærdómsverkefni sem fólk getur tileinkað sér til að efla sig í hlutverki leiðtogans. Þessi lærdómsverkefni eru eftirfarandi. 1) Að læra að vera opinn fyrir því sem aðrir hafa fram að færa, 2) Að læra gagnrýna hugsun, 3) Að læra að styðja við vöxt annarra, 4) Að læra sameiginlega leiðtogahæfni, 5) Að læra að greina reynslu, 6) Að læra listina að spyrja, 7) Að læra lýðræði, 8) Að læra að halda í vonina þegar illa gengur 9) Að læra að búa til samfélög. Það var margt í þessari bók sem að mér fannst hafa samhljóm við annað efni fullorðinsfræðslunnar. Þar ber helst að nefna að greina reynslu en reynsla er talin vera undirstaða þess að skilja lærdóm fullorðinna. Þá finnst mér mikilvægt fyrir alla þá sem stefna á að halda námskeið fyrir aðra að tileinka sér það að styðja við vöxt annarra og vera opin fyrir því sem aðrir hafa fram að færa. Einnig hlýtur gagnrýnin hugsun alltaf að nýtast í öllu námi. Mér þótti bókin einkar áhugaverð og uppbygging hennar var mjög aðgengileg. Ég get mælt með þessari bók fyrir alla sem vilja kynna sér leiðtogahæfni eða styrkja sig enn frekar á þessu sviði.
Vel gert hjá þér Sigrún. Pælingar þínar um leiðtogahæfni eru áhugaverðar. Einhvern veginn finnst mér að sumir séu fæddir meiri leiðtogar en aðrir. Mér finnst ég oft sjá það hjá ungum börnum hvort þau hafi þá eiginleika að verða mikilir leiðtogar í framtíðinni. Þó tel ég að allir geti þróað og þroskað með sér leiðtogahæfni með æfingum, námskeiðum og lestri en held samt að sumir séu bara með meðfædda leiðtogahæfileika.
Sæl Hrönn
Já ég tek undir þetta með þér, ég hef séð þetta í vinnu með börnum á öllum aldri, hvernig sumir virðast hafa meðfædda leiðtogahæfileika. Eins og þú segir geta líklega allir þróað með sér meiri leiðtogahæfni með æfingum, lestri og fleira. Svo held ég að fólk sé líka misjafnt með það hvort það sækist eftir því að vera í leiðtogahlutverkum eða ekki. Sumir virðast þrá að leiða aðra áfram á meðan aðrir hafa engan áhuga á því.
Sæl Sigrún.
Takk fyrir að vekja athygli á þessari bók sem fjallar um efni sem mér finnst mjög spennandi. Leiðtogahæfni. Ég er ákveðin í að verða mér út um bókina og lesa meira um efnið. Eitt af því sem mig langar að tileinka mér í leik og starfi er að vera góður leiðtogi. Ég er sammála þeim þáttum sem taldir eru lýsa góðum leiðtoga. Eitt af því sem mér fannst þó sérstaklega góður punktur var þetta með að halda í vonina þegar illa gengur. Ég ætla að hafa það sérstaklega í huga.
Ég er sammála pælingum um að margir séu fæddir leiðtogar en tel þó að allir gætu lært það, hafi þeir á því áhuga sem er alls ekki sjálfgefið.
Ég hef kynnst og starfað með miklum og góðum leiðtogum sem ég hef lært mikið af og lít mjög upp til. Mér finnst ég líka hafa lært töluvert mikið um leiðtogahæfni á þessu námskeiði. Það hefur alla vega gefið mér tækifæri til að pæla meira í því í hverju leiðtogahæfni er fólgin.
Kær kveðja, Aníta.
Sæl Sigrún og takk fyrir þetta inlegg um bók sem virðist mjög áhugaverð. Og eftir lestur rýninnar þinnar, þá virðist bókin geta höfðað til margra t.d til þeirra sem vilja verða leiðtogar í eigin lífi 🙂
Kaflinn sem fjallaði um að „hlusta á það sem aðrir hafa fram að færa í stað þess að tala sjálfur“ fannst mér sérstaklega áhugaverður í ljósi þeirra kennsluaðferða sem við höfum til hliðsjónar á námskeiðinu.