Námskeiðslýsing og hugleiðing

Námskeiðslýsing

   Jákvæður agi – fyrir grunnskóla 

      Gagnkvæm virðing, samvinna og ábyrgð í þínum skóla

Jákvæður agi kennir börnum og unglingum félagsfærni og lífsleikni. Aðferðir Jákvæðs aga eru byggðar á rannsóknum á árangursríkum uppeldisaðferðum. Jákvæður agi býður upp á áhrifaríkar aðferðir í bekkjarstjórnun og færir kennurum grunnskóla mögnuð verkfæri sem efla:

 • samskiptafærni
 • ábyrgðarkennd
 • sjálfsstjórn

Jákvæður agi stuðlar að skólamenningu sem byggir á gagnkvæmri virðingu.

Á námskeiðinu verður fjallað um:

 • Ólíkar uppeldisaðferðir og áhrif þeirra
 • Áhrifarík verkfæri Jákvæðs aga
 • Bekkjarfundi
 • Sjálfsstjórn og heilann
 • Mistök og lausnamiðaðar leiðir til að fást við þau
 • Ástæður mismunandi hegðunar hjá börnum og unglingum
 • Mikilvægi sjálfsþekkingar

Námskeiðið er ætlað kennurum í grunnskóla sem er að innleiða Jákvæðan aga og verður kennt í viðkomandi skóla. Námskeiðið er 14 klst. sem skiptist niður í 2-3 skipti eftir því sem hentar skólum. Á námskeiðinu er lögð rík áhersla á þátttöku allra í æfingum og umræðum þeim tengdum.

Markmið námskeiðsins er að:

 • Þú lærir að nota margvísleg verkfæri Jákvæðs aga í daglegum störfum þínum með nemendum.
 • Þú lærir að halda bekkjarfundi samkvæmt leiðum Jákvæðs aga með nemendum þínum.
 • Þú getir útskýrt á ítarlegan og sjónrænan hátt fyrir nemendum þínum hvað gerist í heilanum þegar við missum stjórn á skapi okkar, erum undir álagi, erum þreytt og kvíðin.
 • Þú lærir að nota verkfærið Kennari hjálpar kennara þegar finna þarf lausnir vegna nemanda sem glímir t.d. við hegðunarvanda, slæma líðan og uppgjöf gagnvart skóla.

Kennari á námskeiðinu er Aníta Jónsdóttir grunnskólakennari og meistaranemi í Foreldrafræðslu og uppeldisráðgjöf.

 

Allar nánari upplýsingar veitir:

Aníta Jónsdóttir – Sími: 772 7300 – Netfang: anitakennari@gmail.com

Verð á námskeiði fyrir skóla: kr. 450.000. 

Innifalið í verði er fagleg kennsla, persónuleg ráðgjöf, námskeiðsgögn og aðgangur að ýmsum gögnum fyrir skóla í Dropboxi.

Hugleiðing um hvað ég lærði um að skrifa námskeiðslýsingu.

Þegar ég hófst handa við að skrifa námskeiðslýsingu leitaði ég í eldri gögn sem ég á og hef notað þegar ég hef auglýst ýmis námskeið sem ég hef haldið á undanförnum árum. Ég var býsna lukkuleg með að eiga eitthvað í fórum mínum sem ég gæti notað til hliðsjónar við skrif mín núna. En annað kom svo reyndar á daginn. Ég komst að því að námskeiðslýsingar mínar fram að þessu voru nú hvorki fugl né fiskur. Þær voru vægast sagt mjög rýrar og skorti ýmislegt sem ég hef nú lært að sé nauðsynlegur hluti af góðri námskeiðslýsingu.

Mér fannst mjög gott að hafa 7 ráð Christhoper´s Pappas (12.02.2015) til hliðsjónar þegar ég skrifaði námskeiðslýsingu mína. Það fyrsta sem hann nefnir er mikilvægi þess að ná athygli með spennandi og forvitnilegri staðhæfingu um efnið. Ég gætti þess að nota lykilorð tengd Jákvæðum aga í námskeiðslýsingunni minni. Einnig leitaðist ég við að setja lýsinguna upp á hnitmiðaðan hátt og brjóta hana upp reglulega með ýmsum hætti (breiðu letri, punktum, góðu bili milli efnisgreina o.s.frv.). Christopher talar einnig um að forðast endurtekningar og síðast en ekki síst að tala beint til þess sem les í stað þess að tala um hann í 3. persónu. Það var eitt af því sem mér fannst mjög mikilvægt og hafði ekki hugsað um áður.

Ég skoðaði grein á Onlinelearningpoint.com (2011) og það sem mér fannst mikilvægt að hafa í huga eftir þann lestur var meðal annars að greina frá því sem þátttakendur eiga að geta gert eftir námskeiðið, markmið námskeiðsins. Þar er einnig rætt um mikilvægi þess að greina frá tímafjölda námskeiðsins og efni og innihald.

Ég skoðaði töluvert af námskeiðslýsingum á netinu og nefni til dæmis lýsingar á námskeiðum hjá Símey http://www.simey.is/is/namskeid/namskeid-i-bodi. Með því að skoða námskeiðslýsingar get ég sett mig í spor þess sem er að skoða námskeið og séð hvaða upplýsingar eru gagnlegar og hvaða upplýsingar vantar. Mér finnst til dæmis mjög ábótavant víða að það vantar upplýsingar um hvað námskeið kostar. Og þar komum við kannski að helsta veikleikanum, allavega hvað mig snertir. Að verðleggja vinnuna mína. Ég velti fyrir mér hvort að fólk veigri sér við að setja verð á námskeið af ótta við að það fæli fólk/stofnanir frá. Hvað haldið þið um það? En allavega held ég að það sé nauðsynlegt að tilgreina allar upplýsingar og þar með verð.

Mér fannst mjög gaman að glíma við þetta verkefni. Ég lærði gríðarlega mikið af þessu og tel mig vera betur í stakk búna til að skrifa námskeiðslýsingar. Og það kemur sér mjög vel þar sem ég hyggst starfa meira við námskeiðshald og kennslu fyrir fullorðna í framtíðinni.

Aníta Jónsdóttir

Heimildir

Christopher Pappas (12.02.2015). 7 tips to develop attention grabbing eLearning course descriptions. Sótt af https://elearningindustry.com/7-tips-develop-attention-grabbing-elearning-course-descriptions

Onlinelearningpoint.com. (2011) Writing Good Course Description. Sótt af https://www.onlearningpoint.com/writing-good-course-description/.

Símey. Námskeið. Sótt af http://www.simey.is/is/namskeid/namskeid-i-bodi

 

 

2 athugasemdir við “Námskeiðslýsing og hugleiðing”

 1. Mjög flott námskeiðslýsing hjá þér. Væri til í að mæta á þetta námskeið hjá þér sem kennari 🙂
  Ég er alveg sammála þér með verðlagningu, það er rosalega flókið að verðleggja „rétt“. Mjög nauðsynlegt að hafa þessa staðreynd en ég skil vel vangaveltur þínar.

 2. Flott námskeiðslýsing og blogg! Hjálpaði mér helling að byrja á minni líka. Ég er sammála þér með verðið, mér finnst alltaf mjög erfitt að verðleggja vinnuna mína, en hef fengið það ráð frá öðrum að fara frekar hærra en lægra, því það er erfiðara að hækka þegar maður er byrjaður. Ég er líka sammála því að smáatriðin skipta máli – hvar námskeiðið er, hvað það kostar og hvað er innifalið skiptir öllu máli. Eins og ef ég fer út í búð og sé ekki verðmiða á því sem ég ætla að kaupa mér, kemur það oft í veg fyrir að ég kaupi hlutina! Takk fyrir flott blogg 🙂

Skildu eftir svar

%d bloggers like this: