Ritrýni – rannsóknargrein
Þorvaldur H. Gunnarsson
Farið á dýptina
- Leiðsögn um almenn námsmarkmið og sértæk atferlismarkmið áður en kennsla hefst
Tög: Námsmarkmið; Learning Outcomes; Learning Objectives; Atferlismarkmið; Behavioural Objectives; Námshönnun; Learning Design; Námsvitund; Metacognition; Námsárangur; Minnisgeta; Retention
Edinyang, S D og Ubi, I E. (2010). Effect of general and specific behavioural objectives on students’ achievement prior to instruction in social studies. Global Journal of Educational Research, 9(1/2), 85-90. Sótt af http://dx.doi.org/10.4314/gjedr.v9i1-2.62511
Greinin ,,Effect of General and Specific Behavioural Objectives on Students’ Achievement Prior to Instruction in Social Studies” birtist í ritrýnda veftímaritinu Global Journal of Educational Research árið 2010. Tímaritið er afríkst og viðfangsefni þess snýr að birtingu rannsóknagreina í menntageiranum, þá sérstaklega varðandi þróun námskráa, menntun og tækni, stjórnun og fleira. Ein tilvitnun er í greinina samkvæmt gagnagrunni ProQuest.
Höfundarnir, Dr. Edinyang og Ubi, starfa á menntavísindasviði University of Calabar en Calabar er borg í einu af suðurríkjum Nígeríu (Cross River State). Þó erfiðlega hafi gengið að finna heildstæða skrá yfir ritverk Edinyang og Ubi á Netinu má sjá birtar greinar á sviði félagsvísinda eftir þá félaga samkvæmt leit á GoogleSchoolar. Það eru greinar sem Edinyang og Ubi skrifa einstaklingslega eða sem meðhöfundar. Utan greina í Global Journal og Educational Research má sjá greinar eftir þá m.a. í tímaritunum British Journal of Human Resources and Talent Acquisition Research, My Science Work, Journal of Culture, Society and Development, Journal of Education and Practice .
Tilgangur þessarar rannsóknar Edinyangs og Ubis var að skoða hvort nemendur sem fengu leiðsögn eða innsýn í námsmarkmið félagsfræðináms áður en námslotan fór fram, þ.e. almenn námsmarkmið (e. general objectives) eða sértæk atferlismarkmið (e. specific behavioural objectives), bættu námsárangur sinn miðað við þá sem enga leiðsögn fengu um markmið. Til mikils væri að vinna, m.a. að bæta námslega frammistöðu nemenda í félagsfræði í olíuríkinu Akwa Ibom og jafnvel Nígeríu allri. Rannsóknarspurningin hljóðar svo: ,,Að hvaða leyti standa nemendur sig betur sem fá leiðsögn um almenn og sértæk námsmarkmið í upphafi námsins í samanburði við þá sem ekki fá slíka leiðsögn?”
Þýði rannsóknarinnar samanstóð af 1800 nemendum í 23 opinberum unglinga- og framhaldsskólum (e. public post primary school) í Akwa Ibom. Úrtakið var 270 nemendur, valdir með einföldu tilviljunarúrtaki (e. simple random sampling). Rannsóknarsniðið var megindlegt og stuðst var við for- og eftirprófun (e. pretest, posttest). Tveir tilraunarhópar voru myndaðir og einn viðmiðunarhópur (e. control group) – alls þrír hópar nemenda. Frumbreyta rannsóknarinnar var hin almennu námsmarkmið og hin sértæku atferlismarkmið en fylgibreytan (háða breytan) var námslegur árangur í félagsfræðinámi. Gagnasöfnunin fór fram með prófum (for- og eftirprófun) og spurningalista. Gögnin voru greind með samdreifigreiningu (ANCOVA) og niðurstöður forprófsins notaðar sem skýribreyta (e. covariate). Marktektarmörk voru 0,05.
Niðurstöður leiddu í ljós marktækan mun á námsárangri og minnisgetu (e. retention) á milli hópa þátttakenda. Þeir sem fengu leiðsögn um sértæk atferlismarkmið fyrir námslotu náðu töluvert betri árangri en þeir sem fengu leiðsögn um almenn námsmarkmið fyrir námslotu og þeirra sem fengu enga leiðsögn um markmið fyrir námslotu. Og þeir sem fengu leiðsögn um almenn námsmarkmið náðu töluvert betri árangri en þeir sem fengu enga leiðsögn. Edinyang og Ubi segja þessar niðurstöður rannsóknarinnar í takt við ýmsar aðrar rannsóknir og fræðilegan bakgrunn viðfangsefnisins s.s. Robbins (1989), Cohem og Hill (1997), Ragbubir (1979), Mkpa (1986) og Amadi (1990), að ógleymdum Mager, Popham, Bigelaw og MacDonald.
Nú var ekki ætlunin hjá Edinyang og Ubi að færa rök með eða á móti notkun almennra eða sértækra námsmarkmiða við hönnun námsferla heldur að rannsaka hvort leiðsögn eða innsýn í gildi námsmarkmiða fyrir námslotu nýttist hópi nemenda til að bæta námsárangur sinn og minnisgetu. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að fyrirfram vitneskja nemenda um námsmarkmið áður en sjálf kennslan hefst virðist hafa jákvæð áhrif á námslegan árangur þeirra. Á grunni hennar leggja þeir Edinyang og Ubi til að stjórnvöld sjái til þess að endurmenntun kennara feli í sér þjálfun við gerð námsmarkmiða og notkun í kennslu og námi. Eins og þeir segja sjálfir þá hafa námsmarkmið mikil áhrif á árangur nemenda því: A. Námsmarkmið styðja nemendann í því að velja viðeigandi verkefni, efni og aðferðir. B. Vel orðuð markmið segja nemendum hvað sé mikilvægast hverju sinni og að hverju sé best að beina einbeitingunni í náminu. C. Nemendur fá leiðsögn í sínu eigin námi með staðhæfingum og námsmarkmiðum. D. Staðhæfingar í formi atferlismarkmiða veita nauðsynlega endurgjöf bæði fyrir nemendur og kennara. Markmið skýra og glæða námið merkingu. E. Markmið eru skipulagstæki. F. Námsmarkmið eru mið fyrir námskrá. G. Þau gera það mögulegt að hægt er að meta námskrá út frá námslegri útkomu. H. Markmið segja til um hvort endurkenna eigi einhverja kennslustund. I. Þau segja til um hvort víkja eigi frá kennslustund vegna nýrra upplýsinga eða J. að byggja á þessari sömu kennslustund. K. Og námsmarkmið segja til um hvort það eigi að færa sig yfir á næsta viðeigandi stig námsins.
Rannsókn Edinyangs og Ubis er allra athygli verð og grein þeirra kjarnyrt. Viðfangsefnið er skýrt og rannsóknarsniðið þjónar vel tilgangi rannsóknarinnar. Reyndar hefði ég viljað fá nánari umfjöllun um gerð úrtaksins svo áreiðanleiki rannsóknarinnar yrði sem allra mestur. Niðurstöðurnar koma í sjálfu sér ekki á óvart en þær eru afar gagnlegar fyrir þá sem tala fyrir gerð og notkun námsmarkmiða við hönnun námsferla í skólakerfinu, ekki síst atferlismarkmiða. Þær eru líka gagnlegar fyrir þá sem tala fyrir gerð og viðhaldi öflugrar skólanámskrár, námskrá sem er upplýsandi fyrir lykilnotendur. Öll úrræði sem auka námsvitund (e. metacognition) nemenda og námsárangur þeirra hljóta að eiga upp á pallborðið hjá öllum aðilum skólasamfélagsins.
Rannsókn Ediyangs og Ubis sýnir ótvírætt mikilvægi þess að veita nemendum leiðsögn um námsmarkmið áður en sjálf kennslan hefst. Það er vatn á myllu þeirra sem segja að vænlegt sé að brjóta upp hæfniviðmið aðalnámskrár íslenskra grunnskóla frá árinu 2011/2013 og búa til sértæk atferlismarkmið sem kynnt eru nemendum og forráðamönnum þeirra í upphafi skólaárs.