Á föstudaginn 13. janúar hittumst við á staðlotu. Við munum reyna að nota mest allan tímann í að kynnast hvert öðru, svo samvinnan á netinu gangi ljúflega og til að vinna með innihald námskeiðsins og nota dagana þangað til, til að átta okkur á námskeiðinu og fyrirkomulagi þess. Þannig held ég þið fáið mest út úr tímanum sem við erum saman.
Á hugarkortinu hér fyrir ofan (Smelltu á myndinni til að sækja PDF útgáfu af því) má finna dagskrárdrög. Eins og sjá má þá byrjum við kl. 10. Ég fékk upplýsingar um það fyrst í gær að ég hefði stofuna frá kl. 9. En það hefur staðið í dagskránni í rúman mánuð að við byrjum kl. 10. Þannig að við breytum því ekki. EN fyrir þá sem geta komið fyrr, er gagnlegt að koma, fá sér kaffidreitil og kynnast hinum þátttakendunum. Þá getum við byrjað á krafti kl. 10.
- Byrjunarfasinn snýst um að fara yfir markmið námskeiðsins, væntingar ykkar og annað sem tilheyrir byrjunarfasanum.
- Þá stökkvum við á bólakaf í annað þema námskeiðsins, um það hvernig fólk lærir.
- Í kjölfarið skoðum við hlutverk leiðbeinenda og það hvernig þeir geta skapað umhverfi sem stuðlar að námi.
- Þaðan er ferðinni heitið í umræður um ólíkar leiðir til að skipuleggja námsferla fyrir fullorðna.
Í lokin tökum við smá tíma til að renna yfir vafaatriði í tengslum við skipulag námskeiðsins. En ég reikna með að allir verði búnir að lesa skjölin um námskeiðið og líka búnir að varpa fram spurningum. Við gætum þurft að semja um einhver atriði í skipulagningunni að lokum.
Til að undirbúa ykkur bið ég ykkur um að fara vel yfir yfirlitsskjölin og spá í það sjálf hvað það er sem þið viljið fá út úr námskeiðinu. Reiknið með því að það taki ykkur svo nokkrar vikur að finna stefnuna endanlega.