Hvernig fæ ég fólk á námskeiðið mitt?
Spurningin beinir kastljósinu að markhópi námskeiðsins og að koma til hans nokkuð einföldum og skýrum upplýsingum. Samkvæmt Hróbjarti Árnasyni (2017) felur það í sér að svara eftirfarandi spurningum í meginatriðum?
- Til hverra vilt þú höfða til?
- Hvað fá þátttakendur út úr því að taka þátt í námsferlinu sem þú ert að bjóða?
- Hvers vegna ættu þeir að skrá sig?
- Hvað þurfa þeir að vita til að geta tekið ákvörðun?
Góðar námskeiðslýsingar virka. Þær eiga að sannfæra þátttakendur um að námskeiðið þitt sé mikilvægt. Í námskeiðslýsingunni þarf að koma fram hvað þátttakandinn hefur lært eftir að því er lokið, hvað hann muni fá út úr námskeiðinu, hvað verður tekið fyrir og gott er að tiltaka lengd námskeiðsins (Onlearningpoint.com, e.d.). Fyrsta setningin þarf að vera grípandi, orðaforðinn fjölbreyttur og nota skal sagnir sem sýna athöfn (Top Tips for Writing Course Descriptions, e.d.). Lesandinn er hér í fyrirrúmi (Edina Community Education, e.d.) því byrjun lýsingarinnar (fyrstu 5-7 orðin) ráða úrslitum um það hvort hann muni lesa áfram. Titillinn þarf að vera einfaldur en jákvæður og best er að ávarpa lesandann í 2. persónu. Lýsingin ætti ekki að vera lengri en 45-120 orð og sniðugt er að enda hana með ævisögulegri lýsingu á kennaranum í einni setningu (sjá einnig Pappas, 2015).
Heimildir:
Edina Community Education. (e.d.). Writing effective course descriptions. Sótt af http://www.edinaschools.org/cms/lib07/MN01909547/Centricity/Domain/45/Instructor%20Tip%20Sheet.pdf
Hróbjartur Árnason. (2017, 23. mars). Skrifaðu námskeiðslýsingar sem trekkja! Sótt af https://skipulagning-2017.namfullordinna.is/2017/03/23/skrifadu-namskeidslysingar-sem-trekkja-2/
Onlearningpoint.com. (e.d.). Sótt af https://www.onlearningpoint.com/writing-good-course-description/
Pappas, Christopher. (2015, 8. júní). Attention grabbing eLearning course descriptions. Sótt af https://elearningindustry.com/7-tips-develop-attention-grabbing-elearning-course-descriptions
Top Tips for Writing Course Descriptions. (e.d.). Sótt a fhttp://ihlearningcenter.org/Vendors/center/handouts/TopTips.pdf
—————-
(Námskeiðslýsingin)
Einelti á meðal grunnskólanemenda: Greining, viðbrögð, forvarnir
Einelti er ógnvaldur í mannheimum og þú getur komið í veg fyrir útbreiðslu hans. Námskeiðið ,,Einelti á meðal grunnskólanemenda: Greining, viðbrögð, forvarnir” fjallar um birtingarmyndir eineltis hjá grunnskólabörnum og hvað þú þarft að gera og kunna til að stemma stigu við einelti sem fagmaður í skólakerfinu. Þú lærir að þekkja mismunandi tegundir eineltis, aðferðir til að bregðast við því á vettvangi og hvernig viðhalda skal góðum skólabrag. Námskeiðið er alls 33 klukkustundir, skipt upp í sjö lotur (hægt að velja lotur miðað við bakgrunn hvers og eins) og stuðst er við hugmyndafræði Olweusaráætlunarinnar gegn einelti. Kennari námskeiðsins, Þorvaldur H. Gunnarsson, er með verkefnisstjóraréttindi í notkun Olweusaráætlunarinnar og hefur áralanga reynslu í meðferð eineltismála.
Þú ert alveg að selja mér þetta námskeið 🙂 Hef reyndar alltaf viljað fræðast um Olweusar áætlunina – og á vonandi eftir að gera það einhverntíman. Ég myndi samt gjarnan vilja vita hvenær námskeiðið yrði og hversu langan tíma hvert skipti væri – þ.e. svo ég geti ákveðið hvort ég komist 😉
Kv. Björk