Undanfarið hefur farið fram tiltekt á bókasafninu í skólanum þar sem ég vinn. Þar er verið að grisja safnið og þær bækur sem ekki hafa verið teknar að láni hafa endað í endurvinnslutunnunni. Ein af þeim bókum sem ég rakst á í þessari tiltekt er bókin „Stutt námskeið – strangur skóli. Leiðbeiningar um undirbúning og kennslu á stuttum námskeiðum“ eftir Ingvar Sigurgeirsson. Það fer ekki mikið fyrir henni enda ansi lítil – eiginlega meira eins og stór bæklingur. Ég man ekki eftir því að hafa séð þessa bók áður og man ekki eftir því að bent hafi verið á þessa bók í mínu námi. Bókin er gefin út 1990 af Endurmenntunarnefd Háskóla Íslands og Fræðslumiðstöð iðnaðarins. Ég virðist vera fyrsti einstaklingurinn sem tekur þessa bók að láni og var hún því í mikilli hættu í að lenda í endurvinnslutunnunni.
Og þvílíkur fengur! Það sem þessi bók er búin að nýtast mér við skipulagningu násmöppunnar. Þetta er ekki stór bók eins og ég var búin að minnast á, en það er svo margt í henni sem nýtist vel. Margur er knár þótt hann sé smár er eitthvað sem á vel við hér 😉 Bókin er ekki nema 31 blaðsíða en skiptist í u.þ.b. 8 kafla. Fyrsti kaflinn heitir „Áður en námskeið hefst“. Þar eru góðar leiðbeiningar um þekkingar-, leikni- og viðhorfamarkmið. Þá eru góð ráð um frágang námsgagna. Þá er í bókinni stuttur kafli um kennsluaðferðir og mat á námskeiðinu og í lokin er eyðublað sem hægt er að nota við mat á námskeiði.
Í hverjum kafla eru litlir „kassar“ sem hefjast á orðunum Mundu…. Þar sem góð ráð úr hverjum kafla eru tekin saman í stuttar málsgreinar.
Það sem heillaði mig mest við þessa bók er hversu auðlesin og þægileg hún er og hversu mikið kemur samt fram í henni. Þar er allavega margt sem ég gat tengt við mitt námskeið.
Þessi bók nýtist kannski ekki ein og sér en í bland við „Litróf kennsluaðferðanna“ og „Að mörgu er að hyggja“, sem eru einnig bækur eftir Ingvar Sigurgeirsson, er þessi bók góð viðbót.
Ég komst að því að þessi bók er fáanleg í Eymundson og kostar aðeins 1348 kr. Þar er bókin reyndar orðin 48 bls. og gefin út árið 2013 þannig að greinilega er búið að bæta einhverju við. En ég mæli með þessari bók fyrir þá sem hafa áhuga á skipulagningu námskeiða – hún er ódýr og hverrar krónu virði ?