Föstudagspistill

úr Vatnsfirði í Ísafjarðardjúpi seinasta sunnudag

Sama innihald og í myndbandinu: 

Áðan, þegar ég fór út að ganga með hundinn og kom upp á Ásfjallið, þá rifjaðist upp fyrir mér gömul tilfinning …

Ég sat í lest, 17, 18, eða 19 ára gamall, á ferð í gegnum Noreg. Beggja vegna við lestina voru annað hvort klettaveggir eða skógur, ekkert útsýni og mér fannst ég vera að kafna. Svo allt í einu opnast allt: Við vorum komin upp á Harðangursheiðina… og það var eins og við manninn mælt, það kom yfir mig ró og friður… eins og ég væri kominn heim!

Kunnuglegt útsýni hafði greinilega djúp tilfinningaleg áhrif á mig! Horft til baka átta ég mig á því hversu sterk áhrif reynslan / vaninn hefur á okkur og tilfinningar okkar. Þess vegna ríghöldum við gjarnan í það gamla sem við þekkjum, jafnvel þegar við þurfum að grípa hið nýja og finna leiðir til að nýta það í okkar daglega lífi.
Hardangerviddaflora

Nútíminn býður upp á sérlega hraðar breytingar, þess vegna þurfum við að læra að takast á við breytingar, og við sem fullorðinsfræðarar, gætum oft lent í þeirri aðstöðu að leiða hópa fólks í gegnum breytingarnar, eða a.m.k. skipuleggja námskeiðin okkar þannig að þau bjóði fólk upp á tækifæri til að breyta hegðun og viðhorfum (Transformative learning???)

Þetta námskeið býður uppá tækifæri til að endurskoða alls konar hluti í tengslum við viðhorf okkar og venjur í tengslum við kennslu. Á yfirborðinu er t.d. mappan og næsta staðlota gott dæmi um það:

Með því að vinna áþreifanlega námskeiðsmöppu eru mörg ykkar að gera hluti sem þið hafið áður gert, en á öðru vísi hátt. Ykkur er boðið að hugsa út í marga hluti og setja þá mjög skýrt og greinilega fram. Bara það að nota pappír gæti verið óvenjulegt fyrir einhver ykkar OG það býður upp á tækifæri til að upplifa ferlið á nýjan hátt.

Þrír punktar um möppuna:

  1. Sniðmátið er rammi fyrir þig (þú getur eftir námskeiðið breytt sniðmátinu og lagað það að eigin þörfum og praxís). Þar skrifar þú hluti sem hjálpa þér að hugsa um ólíka þætti námskeiðsins og setur á blað hluti sem þú áður kannski hugsaðir bara. Allt sem þú setur inn í sniðmátið er fyrir þig þegar þú skipuleggur og framkvæmir…. ekki fyrir mig!
  2. Kennslufræðilegur rökstuðningur hefur í fyrsta lagi þann tilgang að gefa þér tækifæri til að æfa eitt mikilvægasta markmið námskeiðsins: Að þú getir rökstutt skipulagningu þína og framkvæmd. Í öðru lagi er rökstuðningurinn æfing sem nýtist fyrir meistaraverkefni, því stór hluti þess snýst um að endursegja hugmyndir, rannsóknir eða kenningar annarra með þínum eigin orðum OG tengja þær við einhvern veruleika eða rannsóknarniðurstöður. Í þriðja lagi er rökstuðningurinn besta leiðin þín til að sýna mér hvað þú hefur verið að lesa, hvort þú hefur skilið það og hvað þú ert að læra við lesturinn. Þú getur skrifað um hvaða hluta námskeiðsins sem þú vilt, þess vegna bara eina síðu um uppröðun, eina um val á tiltekinni aðferð og aðra um hvernig þú skipuleggur námskeiðið þannig að fólk nýti það sem það lærði (Heimfærsluáætlun). Þú velur hvað þú vilt skrifa um, setur á litað blað á viðeigandi stað í möppunni. Textinn er að forminu til eins og í meistaraverkefni en heimildaskrá þarf bara að vera á einu blaði á einum stað fyrir allar blaðsíðurnar. Ekki gleyma að lesa vel lýsinguna í skjalinu um verkefnin
  3. Mundu að það er til gátlisti um það hvernig ég met möppuna

Um staðlotuna

Staðlotan verður skipulögð sem tvö verkstæði, þar sem við förum tvisvar sinnum í gegnum það ferli að skipuleggja námskeið / námsferli: Annars vegar með því að styðjast við aðferðafræði „Business Model Generation“ og hins vegar með aðferðum hinna skapandi lista: „Design Thinking„. Í kjölfarið myndið þið hópa, veljið aðra hvora nálgunina og farið aftur í gegnum ferlið með hópnum og búið til nýtt námsferli og kynnið í lok misserisins. Þessu er lýst í skjalinu um verkefnin.

Í Boxinu eru sitt hvor mappan fyrir þetta innihald, lesið eins mikið og þið komist yfir fyrir staðlotuna:

PS: Takið eftir því í myndbandinu að ég gleymdi að horfa í myndavélina, og horfið bara á skjáinn á símanum… Það hefði verið betra að horfa í myndavélina, það munar um þessa 5 sentimetra þegar myndavélin er svona nálægt!!!

Skildu eftir svar

%d bloggers like this: