Mikið var gaman að lesa markmiðin ykkar og ímynda sér öll ólíku námskeiðin sem þið eruð með í undirbúningi. Það er svo sannarlega mikil fjölbreytni og sköpunargleið í gangi.
Markmiðin sem þið skrifuðuð eru mörg mjög góð en greinilegt að sumir glíma enn við þetta. Einkunnaskalinn er svo til allur notaður í einkunnagjöf. Það er alltaf svoleiðis með þetta verkefni! Ég hef aldrei kennt fólki að skrifa markmið og fengið bara verkefni til baka þar sem allir hafa náð þessu strax. Einhverra hluta vegna erum við MJÖG misfljót að átta okkur á því sem málið snýst um. Ég veit ekki ennþá hvers vegna. Þetta var svona þegar ég var sjálfur að læra að skrifa markmið við háskólann í Þýskalandi, og allar götur síðan, þegar ég hef kennt þetta hér. EN þetta er hugarleikfimi sem er er alveg sannfærður um að þið græðið mikið á.
Það er á hreinu að maður nær aldrei að skrifa nákvæm atferlismarkmið fyrir allt sem stendur til að nemendur geti í lok hvers einasta námskeiðs sem við höldum, en eins og með svo margt af þessum toga, þá þjálfa svona aðferðir hugan og breyta því hvernig við vinnum verkið. Það að skrifa atferlismarkmið – eða að hugsa kennsluna í ljósi útkomunnar – verður hluti af fagmennsku okkar.
Þess vegna hvet ég þau ykkar sem eruð ekki búin að ná þessu alveg, að vinna áfram með markmiðin ykkar, inn á milli og skila nýjum markmiðum með möppunni. Það má vel vera að það sé gott að láta þetta hvíla og taka svo upp þráðinn eftir einhvern tíma. Hugurinn virkar oft þannig best.
En hvað ER málið?
1) Fyrsta málið er trúlega sjónarhornið. Þegar við skrifum atferlismarkmið höfum við engan áhuga á því sem gerist á námskeiðinu eða í námsferlinu sjálfu, heldur höfum við áhuga á niðurstöðu námsferlisins, hvað kemur ÚT ÚR ferlinu. Það sem fól GERIR þegar það er búið með námsferlið.
Þannig að við lýsum ekki því sem gerist inni í „ofninum“ eins og í myndbandinu hér fyrir ofan, heldur því sem kemur út úr honum.
2) Næsta gryfja sem margir falla í er að nota sagnir sem lýsa ósýnilegum illmælanlegum „athöfnum“ eins og að þekkja, skilja og kunna. Með því að velja skýrari sagnir er auðveldara að átta sig á því í hverju það er fólgið sem þátttakandi gerir (eða getur gert) að námskeiði loknu.
Þetta getur verið erfitt. Og stundum þá látum við þátttakendum það eftir að ákveða hvað þeir gera við upplýsinarnar sem við kynnum fyrir þeim á fyrirlestrum eða í öðru námsefni. EN þegar við skrifum atferlismarkmið erum við að reyna að lysa eins nákvæmlega og hægt er hver niðurstaðan verður.
Þetta er að sjálfsögðu erfitt þegar við erum að tala um námskeið sem fela ekki í sér neitt námsmat – því það getur verið auðvelt að tengja markmið við námsmat svo sem próf: „Að námskeiði loknu telur þátttakandi upp höfuðborgir allra evrópulanda, utanbókar, þar sem amk. 10 eru réttar“
En ef málið snýst um að njóta þess að hlusta á tónverk eftir Mozart, eða haga samskiptum sínum við börn þannig að þau þroskist vel, verði örugg og geti stýrt eigin hegðun í samræmi við aðstæður.
Ein ástæða fyrir því að það er erfitt að skrifa slík markmið, er að með námskeiðinu erum við að sigta eftir flóknari niðurstöðu en að muna, eða geta kunna ákveðna hreyfingu. Benjamin Bloom tókst á við þetta með því að flokka hæfni á stig þar sem það að muna er auðveldara en að skilja, sem er minna mál en að nýta, hvað þá að meta eða skapa nýtt. Þannig að hegðun foreldra sem ætla að breyta uppeldisaferðum sínum er flókið fyrirbæri, eða undirbúningur fyrir flókna keppni kallar á alls konar þekkingu, skilning og leikni. Kannski snýst námsferlið að skapa skilning á einhverju, en í markmiðunum þurfum við að nota sagnir sem lýsa athöfnum sem sá sem skilur getur gert. Hvað getur sá sem skilur gert sem hinn sem ekki skilur getur ekki gert?
Ef við skrifum skýr atferlismarkmið þá gengur okkur betur að ákveða hvaða upplýsingar þátttakendur þurfa til að ná þeim árangri sem námsferlið á að skila þéim. OG við auðveldum nemendum námið: Rannsóknir hafa sýnt að nemendur sem fá skýr atferlismarkmið í upphafi náms ná meiri árangri en hinir.
Hvað gerum við þá??? Til þess að skrifa skýr atferlismarkmið um svona flókna hluti, sem við ætlum kannski ekki að mæla með prófum þurfum við að ímynda okkur hvað maður gerir þegar maður hefur náð valdi á því sem námsferlið snýst um. Hvernig bregst foreldri við tiltekinni hegðun barns? Hvaða hegðun er sýnileg hjá foreldrinu? Hvað gerir (eða getur gert) sá sem er tilbúinn til að taka þátt í keppni. Ef þú værir fluga á vegg hvað myndir þú sjá??? og hvernig myndir þú lýsa því fyrir einhverjum sem þekkir ekki málefnið? Það getur hjálpað ykkur að nota lista yfir sagnir sem tengjast hverjum flokki í flokkunarkerfi Bloom. Þá sjáum við greinilega að ef við viljum að nemendur hafi einhverjar upplýsingar á hraðbergi að námskeiði loknu, notum við sagnir eins og „telur upp“ á meðan ef við erum að leita eftir skilningi, notum við sagnir eins og „útskýrir“, „flokkar“, „endursegir með eigin orðum“ og ef við viljum að þátttakendur nái svo góðu valdi á efninu að þeir geti nýtt það í eigin starfi þá notum við sagnir eins og „að gera“, „beita“, „breyta“, „leysa“ o.s.frv. Þetta er mál sem maður þarf að pæla svolítið í til að komast í gegnum það, en pælingin borgar sig 😉
3) Sumir skrifuðu engin skilyrði. En þar er málið að útlista undir hvaða kringumstæðum maður vill sjá hegðunina: „Foreldri tekur tíma til að kanna nánar hvað liggur að baki viðbrögðum barns, þegar barnið bregst við á ofsafengin hátt“. þetta gæti verið skilyrði. Eða „utanbókar“ ef þátttakandi á að kunna eitthvað svo vel að hann/hún þurfi ekki að fletta því upp, eða „að sjálfsdáðum„, þá erum við að kalla eftir vilja og skilningi á aðstæðum… o.s.frv.
4) Að lokum var það mælikvarðinn: Þriðji þáttur atferlismarkmiða er mælikvarðinn. Þar skrifum við hvaða er nógu gott, eða hvernig lýsir hegðunin sér. Hér erum við að segja námsmanni, okkur sjálfum og ímynduðum „prófdómara“ hvernig ásættanleg hegðun lítur út. Ef við erum að leita eftir utanbókarlærdómi (sem er stundum gagnlegur) þá er spurning um það hversu mikið þarf þátttakandi að muna. Hvað er nógu gott er nóg að muna 50% upplýsinganna sem átti að læra, eða þarf það að vera 80%. Stundum þurfum við að lýsa niðursöðunni. „… útskýrir áhrifa refsinga á hegðun barna, án þess að styðjast við glósur, með því að útskýra a.m.k. 3 rannsóknir um áhrif refsinga, og áhrif þeirra á áhugahvöt og sjálfsmynd….“ Býr til matseðil, með því að styðjast við handbækur og uppskriftabækur, sem inniheldur öll næringarefni í lista X um heilbrigt fæði“ „Að námskeiði lokni útbúa þátttakendur æfingaáætlun, með því að styðjast við námskeiðsgögn, sem er nægilega löng ströng og fjölbreytt að hún dugi til að byggja upp líkamlegan OG andlegan þrótt sem þarf til að ….“
Ég vona að þetta hjálpi eitthvað, annars hvet ykkur til að lesa:
- leiðbeiningarnar fyrir verkefnið aftur,
- Mager allan og
- gögnin í möppunni og
- eitthvað af því sem er í Diigo listunum mínum undir lykilorðum eins og markmið, hæfniviðmið, bloom