Að vekja áhuga nemenda…hvernig förum við að því?

Hér verður fjallað um bók eftir Robert F. Mager sem ber nafnið How to Turn Learners on…without turning them off: Ways to ignite interest in learning. Ég valdi bókina þar sem titillinn höfðaði sterklega til mín. Ég hef starfað við kennslu í rúm 20 ár og þetta er sennilega sú spurning sem hefur ásótt mig hvað mest í starfi mínu – hvernig höfðar maður til nemenda?

Það er ekki ofsögum sagt að markmið höfundarins Robert F. Mager með bók sinni sé allt í senn háleitt, göfugt og spennandi. Í fyrsta lagi kenna kennurum að kveikja áhuga nemenda á námi, jafnvel þannig að þeir fái á því brennandi áhuga. Og í öðru lagi að eftir námið brenni nemendur í skinninu eftir að nota þekkingu sína, hæfni og leikni. Útgangspunktur dr. Mager´s er að skapa jákvætt viðhorf til náms. Og það er á þeim nótum sem höfundurinn nálgast viðfangsefnið, með jákvæðni, húmor og raunverulegum dæmum sem auðvelt er fyrir lesandann að tengja við. Bókin er skrifuð fyrir kennara sem vilja að nemendur sínir eflist við nám sitt og beiti þekkingu sinni áfram að námi loknu.

Bókin fjallar um mikilvæga þætti tengda þeim þemum sem rædd hafa verið í námskeiðinu okkar. Má þar helst nefna umfjöllun um hvernig fólk lærir, um mikilvægi þess að skapa gott námsumhverfi, hafa markmið kennslunnar skýr og síðast en ekki síst hvernig meta á hvernig til tókst.

Ég tel að höfundur sé góð fyrirmynd fyrir lesendur sína. Hann er einarður í umfjöllun sinni, gerir það sem hann segist ætla að gera og sýnir hvernig hann ætlar að ná markmiðum sínum. Áhugi hans á efninu skín í gegn og undirstrikar mikilvægi þess að kennari brenni fyrir kennslunni og nái þannig að hafa áhrif á viðhorf og árangur nemenda sinna. Hann leggur til grundvallar skrifum sínum eina af mikilvægustu spurningum í námi og kennslu: ,,Hvað hvetur fólk til náms?“ (Merriam og Bierema, 2014, p. 146). Kennarar ættu að gefa þessari spurningu meiri gaum í skipulagi kennslu sinnar, að mínu mati.

Ég mæli með bók dr. Robert F. Mager fyrir kennara á öllum skólastigum. Bókin fjallar um mikilvægt viðfangsefni, áhugahvöt í námi, sem ég tel vera eina af grunnstoðum náms.

Aníta Jónsdóttir.

Bókarýni – How to Turn Learners On…

 

 

 

8 athugasemdir við “Að vekja áhuga nemenda…hvernig förum við að því?”

  1. Vel gert Aníta 🙂
    Mager er sannarlega höfundur sem er samkvæmur sjálfum sér í að vekja áhuga á efninu. Svo þessi áhersla á hvað kennarinn ætlar einhvern veginn ,,að gera við“ nemandann en ekki ,,með“. Mig langar virkilega að lesa þessa bók eftir að hafa lesið bókadóminn. Minni svo á að ,,danska – kemur þér lengra!“. Það var lengi vel mottó í dönskukennslunni minni fyrir ekki svo mjög mörgum árum ;-). Ég held að það hafi vakið einhverja nemendur til umhugsunar um ,,til hvers!“ viðhorfið sitt.

    1. Heill og sæll.
      Takk fyrir kveðjuna Þorvaldur. Dönskukennari Naustaskóla segir við sína nemendur að danska sé lykillinn að lífshamingjunni. Ég veit ekki alveg…en Mager er allavega lykillinn að áhugaverðum pælingum um kennslu.
      Kveðja, Aníta.

    1. Sæl Drífa.
      Takk fyrir. Ég hvet þig eindregið til að lesa bókina. Eins og við höfum rætt væri mjög skynsamlegt að eiga bækur Mager til að nota áfram eftir þetta námskeið. Hann skrifar á magnaðan hátt um efnið og fær mann til að langa að lesa og læra.
      Kveðja, Aníta.

    1. Sæl Hrönn.
      Takk fyrir. Já þú verður ekki svikin af því að lesa Mager.
      Ég er sammála þér um að margt af því sem við höfum lært hjá Hróbjarti í vetur eigi rætur að rekja til Mager. Ég held að það sé erfitt að verða ekki fyrir áhrifum frá honum, hann er magnaður höfundur.
      Kveðja, Aníta.

Skildu eftir svar