Stress er smitandi


,,Undgå at blive smittet med
stress
er grein eftir © Hans Toft Nielsen sem birtist 20. janúar 2017 á dönsku heimasíðunni Lederweb. Hún er þýðing greinarinnar  ,,Make yourself immune to secondhand stress, ásamt breytingum Nielsens.

© Snarað úr dönsku, ritstýrt og breytt af Þorvaldi H. Gunnarssyni, janúar 2017.

Hver kannast ekki við að verða fyrir áhrifum af stressi annarra? Að finna fyrir neikvæðri spennu frá öðrum t.d. á vinnustaðnum. Það kallast yfirfært stress (e. second hand stress) eða tilfinningar sem ,,smitast” á milli fólks. Leiðtogar og stjórnendur verða sérstaklega að vara sig á þessu fyrirbæri.

Birtingarmyndir yfirfærðs stress:

Strætisvagnabílstjórinn flautar á næsta bíl, auðsjáanlega stressaður og reiður. Einhverjir farþegar munu líklega taka með sér stress bílstjórans inn á vinnustaðinn sinn.

Yfirmaðurinn strunsar inn í fundarherbergið. Finnurðu fyrir spennunni?

Skrifstofufólk aðgreint með glerveggjum finnur fyrir panikki vinnusama samstarfsmannsins hinum megin við vegginn.

Af hverju smitast tilfinningarnar svona auðveldlega? Rótin er tilvist spegilfruma en þær gera það að verkum að við mannfólkið getum lifað okkur inn í atferli annarra og þannig skilið hvernig öðrum líður. Gott dæmi um virkni spegilfruma er þegar við sjáum einhvern annan geispa en þá er erfitt að neita sér um að geispa sjálfur. Bros leysir þessa virkni úr læðingi. Það sama á við um neikvæðni, stress og óöryggi.

Vísindamenn við háskólann í Kaliforníu komust að þeirri niðurstöðu að ef manneskja í kringum þig er afar hrædd, hvort sem hún sýnir það í orðum eða ekki, þá er líklegt að tilfinningin muni hafi áhrif á þína heilastarfsemi og úrvinnslugetu.

Og hverjir smita mest? Það eru þínir nánustu, hvort sem um er að ræða fjölskyldumeðlimi eða samstarfsmenn. Því nánari sem þeir eru því meiri hætta er á að stressið hafi áhrif á taugakerfið. Þetta hefur fengist staðfest hjá þátttakendum í rannsókn er sýndi að stresshormónið kortisól jókst þegar þátttakendur fylgdust með atferli stressaðrar manneskju.

En hvers vegna finnum við fyrir stressi annarra á þennan hátt? Heidi Hanna hjá American Institute of Stress segir að yfirfært stress sé mögulega hluti af eðlislægum hæfileikum okkar mannfólksins til að greina hættur í umhverfinu. Við getum greint lífræðilegan hrynjanda eins og púls, andardrátt og við finnum jafnvel lykt af stressi. Lyktin stafar af sérstökum stresshormónum í svita fólks. Stressið og neikvæðnin getur þannig hreinlega svifið inn á vinnustaðinn.

Hvernig komum við í veg fyrir smit og hvernig styrkjum við ónæmiskerfi tilfinninganna? Þar sem við erum stöðugt í kringum sama fólkið, hvort sem það er heima eða á vinnustað, þá er töluverð hætta á að smitast af yfirfærðu stressi. Við þurfum því að styrkja ónæmiskerfi tilfinninga okkar, þá sérstaklega leiðtogar og stjórnendur. Hér eru nokkur ráð:

  • Láttu stressið vinna fyrir þig. Í rannsóknarverkefni Dr. Alia Crum við Stanford Mind & Body Lab og Peter Salovey stofnanda Yale Center for Emotional Intelligence kemur fram að með því að hugsa jákvætt um stressið og berjast ekki á móti því þá minnka neikvæð áhrif þess um rúmlega 20%. Í stað þess að láta aðrar neikvæðar manneskjur í kringum þig valda þér vonbrigðum og leiðindum þá skaltu frekar taka því sem áskorun um að sýna þeim samúð og hjálpa þeim að verða jákvæðari. Jákvæðar hliðar stress geta kallað fram aukna andlega virkni á borð við aukna meðvitund, framköllun nýrra sjónarhorna, sjálfstjórnun og sterkari forgangsröðun.
  • Komdu þér upp jákvæðu móteitri. Mættu stressuðum samstarfsmanni með brosi eða skilningi í stað þess að taka undir stress hans.
  • Byggðu upp náttúrulegt ónæmi. Því sterkari sem sjálfsmynd þín er og jafnvægi því líklegri ertu að takast á við hvaða aðstæður sem er og hættan á að þú takir inn stress annarra minnkar til muna. Ef þú verður auðveldlega fyrir áhrifum af skoðunum og líðan annarra staldraðu þá við og minntu þig á hvernig hægt er að takast á við aðstæðurnar. Hreyfing er hér mikilvægt atriði í að styrkja sjálfsmyndina því heilinn framkallar sigurtilfinningu með hjálp endorfíns í hvert sinn sem þú þjálfar þig.
  • Bólusettu þig. Bólusettu þig áður en þú ferð inn í ,,stressað” umhverfi. Hér eru fjórar tegundir vana sem byggjast á jákvæðri sálfræði: 1. Skrifaðu tölvubréf í tvær mínútur þar sem þú hrósar einhverjum sem þú þekkir. 2. Skrifaðu hjá þér þrjá hluti sem þú ert þakklátur fyrir. 3. Færðu dagbók í tvær mínútur um jákvæðar upplifanir. 3. Hreyfðu þig í 30 mínútur eða stundaðu hugleiðslu í tvær mínútur á hverjum degi.

Sjá betur þennan TED fyrirlestur.

3 athugasemdir við “Stress er smitandi”

  1. Frábært! Mér finnst einmitt svo mikilvægt að maður láti ekki stress annarra hafa áhrif á sig og mjög góðir punktar þarna úr jákvæðu sálfræðinni sem talað er um að virki vel í sambandi við þetta. Er sammála þér þegar þú nefnir í byrjun að stjórnendur verði að hafa varann á varðandi þetta. Ég held að því miður gerist það alltof oft að stjórnendur og leiðtogar láti stress ná tökum á sér og það hefur oft mjög neikvæð áhrif á upplifun annarra á annars ágætu fólki 🙂

Skildu eftir svar