LAP (Linguistically appropriate practice)
Fjölmenningarleg kennsla í leikskólum með áherslu á virkt tvítyngi
Kennir þú í leikskóla þar sem nemendur og foreldrar tala mörg ólík tungumál? Viltu öðlast frekari þekkingu á fjölmenningarlegum kennsluháttum með áherslu á virkt tvítyngi? Þá er þetta námskeið fyrir skólann þinn.
LAP ýtir undir fjölmenningarlegan skólabrag þar sem móðurmál allra er viðurkennt sem styrkleiki og auki færni til náms.
Á námskeiðinu verður fjallað um aðferðarfræði LAP og hvernig kennarar geta skapað málumhverfi sem eykur líkur á að byggja upp færni barna í íslensku sem og móðurmáli sínu. Hugmyndir að fjölmenningarlegum verkefnum verða kynntar auk aðferða til samskipta og samvinnu við foreldra um hvernig þeir geta stutt við nám barna sinna. Það sem einkennir LAP er virðing, jákvætt viðhorf til tvítyngis og gott samstarf við foreldra sem leiðir til sterkari sjálfsmyndar og betri námsárangurs.
Að loknu námskeiði:
- Þekkir þú aðferðarfræði LAP.
- Hefur þú færni til að undirbúa málumhverfi skóla með tilliti til fjölmenningar og virks tvítyngis.
- Þekkir þú aðferðir til samskipta og samvinnu við foreldra og forráðamenn um virkt tvítyngi.
- Hefur þú hugmyndir að fjölmenningarlegum verkefnum og getur útbúið þín eigin verkefni.
Námskeiðið er fyrir starfsfólk leikskóla. Áætluð lengd námskeiðs eru 3 skipti – 4 stundir í senn. Uppbygging námskeiðs eru fyrirlestrar, umræður og verkefnavinna.
Kennari á námskeiðinu er Drífa Þórainsdóttir leikskólakennari, sérkennari og meistaranemi í Foreldrafræðslu og uppeldisráðgjöf með reynslu af kennslu í fjölmenningarlegum leikskóla í samstarfi við prófessor Roma Chumak Horbatch sem er höfundur LAP: http://www.ryerson.ca/mylanguage/lap/
Allar nánari upplýsingar veitir:
Drífa Þórarinsdóttir í síma: 8651464 – Netfang: dth33@hi.is Verð á námskeiði fyrir skóla: kr. 192.000 auk ferðakostnaðar.
Um gerð námskeiðslýsingarinnar
Ég hef ekki áður útbúið námskeið frá grunni né útbúið námskeiðslýsingu svo þetta er frumraun mín. Ég byrjaði á að skoða námskeiðslýsingar á netinu og eru þær mjög mismunandi. Eftir að hafa lesið mér til um gerð námskeiðslýsinga á netsíðum sá ég að margar námskeiðslýsingar eru mjög góðar og fá mann til að langa á námskeiðið en aðrar ekki. Sumar námskeiðslýsingar geta kveikt áhuga í byrjun en þegar líður á lesturinn slokknar áhuginn og maður jafnvel les ekki lýsinguna til enda. Við gerð námskeiðslýsingarinnar hafði 7 ráð Chrishoper´s Pappas til hliðsjónar en fylgdi ráðleggingar Julie Coates sem er sérfræðingur hjá LEARN. Julie og Christopher segja margar námskeiðslýsingar vera slakar; séu óformlegar, of venjulegar, of flóknar og oft notaðar of miklar endurtekningar. Einnig gleymist áhersla á námskeiðið sjálft og þátttakendur með of mikilli áherslu á kennarann s.s. menntun og hvað hann ætlar að gera eða reyna að gera fyrir þátttakendur. Hér á eftir greini ég frá ráðleggingum Julie sem ég studdist við í námskeiðslýsingu minni. Ég verð að viðurkenna að það var snúið að fylgja þeim leiðbeiningum og fór ég marga hringi um innihald, orðaval, setningamyndun, áherslur og uppröðun.
Julie talar um að námskeiðslýsing byggi á fjórum þáttum.
- Titill námskeiðslýsingarinnar þarf að vekja áhuga lesandans.
- Skipulagning; þar sem koma fram upplýsingar um staðsetningu, fjölda þátttakenda, lengd námskeiðs, verð o.s.fr.v
- Lýsing á námskeiði þarf að vera áhugaverð, efnislega fullkomin og nákvæm og innihalda traustar upplýsingar. Hér eru nokkur ráð:
- Orðafjöldi frá 30-120, stutt og hnitmiðað.
- Ef orðafjöldi er yfir 60 er ráðlagt að hafa tvær málsgreinar.
- Upplýsingar um kennara skal ekki blanda inn í námskeiðslýsingu heldur hafa það í lok námskeiðslýsingar.
- Notið ekki skammstafanir nema allir viti hvað þær merkja. Aðeins skammstafanir sem eru algengar í daglegu máli.
- Skrifið í heilum setningum. Ófullnægjandi setningar ætti ekki að nota nema til áherslu.
Við gerð námskeiðslýsinga á að einblína á innihald námskeiðsins eða þátttakendur sjálfa en ekki á námskeiðið sjálft eða kennarann. Til að tæla fólk á námskeiðið skal leggja áherslu á ávinning fyrir þátttakendur, hvað þeir taka með sér af námskeiðinu eða gildi viðfangsefnisins. Nemar eru uppteknir af sjálfum sér og innihaldi námskeiðsins, ekki námskeiðinu sjálfu eða kennaranum þó svo hæfni hans geti trekkt að.
Fyrstu tvær setningarnar í námskeiðslýsingu ættu að vera tælandi og áhugaverðar. Næstu tvær til fimm setningarnar ættu að endurspegla umfang og innihald námskeiðsins. Fyrstu fimm orðin í lýsingunni munu oft ákvarða hvort lesandinn muni halda áfram lestrinum eða leita að öðru námskeiði.
Hér er sex góðar opnunaraðferðir:
- Skilgreining (e. definitaion)
- Niðurstaða (e. the end result)
- Áhrifamiklar staðreyndir (e. the outstanding or impressive fact)
- Spurning (e. a question)
- Tilvitnun (e. the quotation)
- Truflun sem vekur áhuga og lesandinn hefur fulla athygli (e. the distraction)
Varast skal endurtekningar og ekki skal nota merkingarlausar setningar s.s. „ ef tími leyfir munum við ræða aðrar leiðir“.
- Ágrip um kennara skal vera um 15-50 orð í aðgreindum texta frá námskeiðslýsingunni. Lýsingin skal sýna fram á hæfni kennarans en jafnframt hvernig reynsla hans sýnir fram á að hann er jafningi þátttakenda upp að ákveðnu marki. Nota skal menntunargráður í neyð en gott er að það komi fram sá áhugi sem viðkomandi hefur á efninu og kennslu námskeiðsins.
Drífa Þórarinsdóttir
Heimildir
Christopher Pappas (12.02.2015). 7 tips to develop attention grabbing eLearning course descriptions. Sótt af https://elearningindustry.com/7-tips-develop-attention-grabbing-elearning-course-descriptions
Chumak-Horbatsch, R. (2012). Linguistically appropriate practice: A guide for working with young immigrant children. Toronto: University of Toronto Press.
Julia Coates (30.09.2015). How to write successful courwe description. Sótt af: http://blog.lern.org/how-to-write-successful-course-descriptions
Vel gert Drífa og flott námskeiðslýsing sem vekur áhuga 🙂
Flott námskeið og mjög áhugavert 🙂 Góð uppsetning hjá þér.