Þjónustuverkefni – stutt skýrsla

Skýrsla um þjónustuverkefni

Í þessari skýrslu ætla ég að fjalla um þjónustuverkefni sem ég tók að mér á námskeiðinu. Ég geri grein fyrir ástæðum þess að ég valdi þessi verkefni, hvernig ég undirbjó mig, hvað ég lærði og hvernig þetta studdi við nám mitt í fullorðinsfræðslu.

Ég tók að mér að skrifa 3 fundargerðir eftir fundi okkar. Ég valdi þetta verkefni þar sem mér finnst gaman að skrifa fundargerðir og ég geri mér líka grein fyrir mikilvægi góðrar fundargerðar. Þegar ég undirbjó mig undir að skrifa fundargerðina, gætti ég þess að kynna mér vel dagskrá fundarins þannig er auðveldara að setja sig inn í viðfangsefnið. Ég hafði stílabók og blýant mér við hönd og skrifaði niður punkta meðan á fundinum stóð, ég gæti þess að skrá hjá mér allt það sem ég taldi vera mikilvægt. Einnig finnst mér gaman að taka niður skemmtilegar athugasemdir og eitthvað sem getur gert fundargerðina skemmtilega aflestrar.

Ég ákvað að skrifa endanlega fundargerð í forritinu Sway sem ég hafði aldrei áður notað. Það fór töluverður tími í að fikra sig áfram í forritinu en að endingu tókst þetta og ég var ánægð með afraksturinn. Ég lærði mikið af því að nota Sway og að búa til bloggfærslu á vefnum okkar sem ég hafði ekki gert mikið af áður.

Ég tel að verkefni af þessum toga nýtist fullorðnum námsmönnum vel. Það er gagnlegt að taka þátt í náminu á virkan hátt, hafa hlutverk og eiga jafnvel smá hlutdeild í námi annarra. Öll þjónustuverkefnin voru þess eðlis að nemendur fengu tækifæri til þess að nota verkfæri sem síðar gætu nýst í þeirra eigin kennslu.

Ég hefði alveg verið tilbúin til að taka fleiri verkefni að mér og læra þannig meira, til dæmis er ég mjög spennt fyrir að læra meira á AdobeConnect sem mér finnst alveg magnað verkfæri sem hefur gert mér kleift að stunda nám mitt á virkan hátt.

Minnispunktar fyrir fundargerðir

  • Skrá hjá þér dagsetningar þeirra funda sem þú ætlar að skrásetja.
  • Kynna þér vel dagskrá fundarins.
  • Hafa skriffæri og blöð við höndina.
  • Fá myndir frá fundinum til þess að setja í fundargerðina.
  • Vera eins nákvæmur og þörf krefur, án þess að teygja lopann óþarflega.
  • Lesa vel yfir skrif þín áður en þú skilar.
  • Nota forrit sem hentar þér til að skila fundargerðinni.

Aníta Jónsdóttir

Skildu eftir svar