Nám á milli kynslóða (intergenerational learning). Blogg úr grein.

Rethinking the role of adults for building the lifelong learning society.
Monica Turturean (2015).

Eins og titillinn gefur til kynna þá fjallar greinin um „lifelong learning“ sem ég kýs að kalla lífstíðar nám í þessu bloggi. Greinin fjallar einnig um „intergenerational learning“ sem ég mun þá kalla nám á milli kynslóða, þó eflaust séu til betri þýðingar á þessum hugtökum.

Greinina fann ég þegar ég var að leita eftir hugtökum úr fullorðinsfræðslunni á sviði foreldrafræðslunnar með það markmið að finna hagnýtar upplýsingar um hvaða kenningar fullorðinsfræðslunnar nýtast þar. Mér fannst hugmyndin um nám á milli kynslóða mjög heillandi og hef kynnst henni áður í foreldrafræðslunni.

Greinin er tiltölulega stutt umfjöllun um nám á milli kynslóða og lýsir því hvernig fólk af öllum aldri getur lært saman og af hvort öðru, sem mikilvægur hluti af lífstíðar námi þar sem kynslóðir vinna saman til að auka hæfni, gildi og þekkingu hvors annars. Hugmyndin í tengslum við foreldrafræðslu er sú að samfélagið hefur hingað til litið á foreldra sem umönnunaraðilar en samfélagið ætti að sjá þá sem kennara. Börn læra af foreldrum sínum, þau læra gildi þeirra og viðhorf, samskipti og hafa foreldrar áhrif á tengslanet og samfélagslega stöðu barnanna. Áður hef ég kynnst hugtakinu í tengslum við hvernig fullorðin börn læra af foreldrum sínum og því fannst mér þetta áhugavert efni.

Í greininni er markmið foreldrafræðslu að auka hæfni foreldra. Foreldrar eru frumkennarar (e. primary teachers) barnanna og foreldrafræðslan á að virkja foreldra til þátttöku í menntun barna þeirra. Foreldrafræðsla veitir foreldrum tækifæri til þess að uppgötva styrkleika sína, auka lífshæfni þeirra og til þess að læra um alhliða þroska barna. Hlutverk foreldrafræðarans er að vera fyrirmynd fyrir foreldra, sem leggja mikið á sig til þess að læra nýja hæfni og nýja þekkingu.

Markmið náms á milli kynslóða er meðal annars að auka samskipti og félagslega hæfni, þekkja þarfir annarra, vinna í sameiningu til að ná fram betri frammistöðu og styrkja samband á milli foreldra og barna og svo framvegis. Börn og foreldrar vinna saman og læra samskiptileiðir til þess að tengjast og leysa mögulega vandamál, til að finna sameiginleg áhugamál sem veitir báðum hamingju en á sama tíma að auka þekkingu og náms tækifæri sín. Foreldrar eru því meira heldur en bara umönnunaraðilar. Þeir læra hvernig þeir geta bætt sig til að vera kennarar fyrir börnin sín og vera full meðvitaðir um hversu nauðsynlegt það er.

Aðferðir sem foreldrar nota til þess að kenna börnum er meðal annars að foreldrar eru fyrirmyndir barnanna, þeir tengja kenningu með raunveruleikann (e. theory to practice) þar sem það sem þeir læra er tengt við raunverulegar aðstæður, foreldrar kenna börnum að læra, leika við þau þar sem að nám er auðveldara ef upplýsingarnar eru settar upp í ákveðnum leik og eru áhugaverðar, ýta undir félagsleg tengsl, hvetja þau áfram sem endurmat fyrir börnin, ræða við þau um vandamálin og fara í lausnaleit saman, gefa sér tíma. Þannig hafa börnin einnig áhrif á nám foreldranna. Þetta er því víxlverkandi nám á milli tveggja – eða fleiri – kynslóða.

Þessi umræða um mismunandi kennsluaðferðir sem foreldrar nota beint og óbeint til þess að kenna börnum og hvernig börnin læra af þeim finnst mér vera grundvallar þekking á því hvernig hægt er að byggja kenningar fullorðinsfræðslunnar á námskeið fyrir foreldra og leiðbeina þeim á viðeigandi hátt.

Höfundurinn Monica Turturean er ekki mikið þekkt. Hún hefur gefið út 13 greinar og flestar á sviði menntavísinda en ekki er vitnað í nema eina þeirra í öðrum greinum. Hún er prófessor við háskólann Stefan cel Mare University of Suceava í Rúmeníu. Hún stikklar á mörgu stóru í greininni, sem er stutt og er frekar eins og kynning á þessum kenningum. Áhugavert hefði verið að sjá ítarlegri grein á hverju efni fyrir sig en hver veit nema það sé allt saman í vinnslu.

Hún telur að mikilvægi náms milli kynslóða sé tiltölulega nýtt af nálinni og leggur áherslu á fullorðna í lífstíðar námssamfélagi. Þetta er óformlegt nám sem leggur áherslu á að nám er uppfylling á lífinu. Áhersla er að foreldrar sæki foreldrafræðslunámskeið vegna þess að þeir eru yfirleitt ekki með nýjustu, bestu eða áreiðanlegustu upplýsingarnar um þroska og þarfir barnanna sinna og samfélagsins. Foreldrahlutverkið er stór partur af lífi fullorðinna og ekki er auðvelt að vera gott foreldri en með þessum aðferðum og námskeiðum geta foreldrar verið sannir foreldrar (e. real parents). Hún leggur áherslu á að foreldrar séu fyrirmyndir barna og á félagsnámskenninguna. Viðhorf foreldra mótar viðhorf barna og ef börnin eiga að mennta sig þá eiga foreldrar að mennta sig til hvatningar.

Mér finnst mjög áhugavert hvernig hún orðar sannir foreldrar. Fullorðnir sækja sér meiri menntun til þess að bæta sig í vinnu, áhugamáli eða hverju sem það er en mér finnst mjög áhugavert hvernig fullorðinsfræðslan kemur inn á hæfni og færni foreldra. Hvert er markmið þeirra? Hvað er markmið fræðslunnar?

Heimild: Turturean, M. (2015). Rethinking the role of adults for building the lifelong learning society. Procedia – social and behavioral science, 180, 1215-1220. DOI: http://dx.doi.org/10.1016/j.sbspro.2015.02.249

5 athugasemdir við “Nám á milli kynslóða (intergenerational learning). Blogg úr grein.”

  1. Takk fyrir þetta Sóley
    Maður er alltaf að læra og tengja hluti saman sem maður les eða sér, að samfélagið hafi horft á foreldrar sem umönnunaraðila en ættu kannski frekar að horfa á þá sem kennara. Ja foreldrar eru fyrirmyndir barnanna og þau eru saman öllum stundum þannig foreldrar eru að vissu leyti kennarar. Ég hef ekki áður heyrt orðið kennari notað yfir þetta en það gerir hlutverkið einhvernveginn áhrifameira, sem mér finnst samt að ætti ekki að vera því mér finnst foreldrarhlutverkið vera mikilvægasta hlutverk sem maður fær. En það er alltaf gaman að pæla í hlutunum og það er eitt af því sem ég elska við það að vera í námi það er að hafa ykkur öll með mér í því 😉

    1. Sammála Ragnhildur. Mér fannst þetta áhugaverður punktur, foreldrar eru ekki aðeins að hugsa um börnin sem ummönnunaraðilar heldur kenna þeim og mér fannst mjög áhugavert að hugsa um formlegt og óformlegt nám í kjölfarið af því. Ég get svo líka gagnrýnt greinina og einn punkturinn er hvernig yfirfærsla á samfélagslegt viðmið í Rúmeníu er hægt að yfirfæra yfir á okkur hérna á Íslandi.
      og nú pæli ég, höfum við í íslenskunni okkar betra orð yfir „educator“ heldur en kennari?

  2. Takk fyrir þetta skemmtilega blogg Sóley 🙂
    Já þetta er áhugavert að pæla í hlutverki foreldra og hvað foreldrahlutverkið hefur mikil áhrif á fullorðið fólk. Lifelong learning segir mikið um það finnst mér. Maður þroskast alveg ótrúlega og er alltaf að læra eitthvað nýtt með því að vera foreldri. Mér finnst svo vel hægt að tengja þetta við Transformative learning eða umbreytingarnám því það á sér svo sannarlega stað þegar fullorðnir eignast barn og læra að vera foreldrar. Svo mikið sem breytist og mikill þroski sem á sér stað (allavega oftast…).

    1. Takk fyrir þessa áhugaverðu grein Sóley. Mér finnst áhugavert hvernig þú nálgast þetta Agga að við ættum kannski að líta á foreldra sem kennara. Ég get tekið undir þessa nálgun. Börn læra að mínu mati mikilvægustu hlutina af foreldrum sínum, t.d. gildi og því er mikilvægt að vel sé stutt við foreldra til að mynda með námskeiðum. Hugtakið félagslegur arfur kom líka upp í hugann hjá mér þegar ég hugsa um nám á milli kynslóða. Barn lærir af foreldrum sínum vissa hluti, gildi og venjur sem heldur svo áfram á milli kynslóða.

  3. Áhugaverð grein sem þú fjallar um og vekur mann til umhugsunnar um það hvernig nám á milli kynslóða fer fram í nútíma samfélagi. Þar sem samvera er af skornum skammti og allir uppteknir af því að taka þátt í tómstundum, skóla og vinnu ekki bara börn heldur foreldrar líka. Það skiptir samfélagið miklu máli að félagsleg hæfni komandi kynslóða og að þær þekkji hvað það er að vera borgari í því samfélagi sem við búum við.
    Samfélagsmynd okkar hér á Íslandi hefur þróast hratt frá því að vera bændasamfélag þar sem börnin voru með foreldrum allann daginn í það að verða það samfélag sem við þekkjum í dag. Það er ekki því úr vegi að huga að félagslegum samskiptum barna og foreldra eins og segir í greininni að finna sameigninleg áhugamál því foreldrar eru ekki bara umönnunaraðilar heldur eru þeir að kenna börnum sínum.

Skildu eftir svar